Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dómstólar upplýstu um heilsufar Páls á netinu

14.03.2017 - 21:57
Mynd með færslu
Páll Sverrisson. Mynd: RÚV
Íslenskir dómstólar hafa í dómum á netinu ítrekað nafngreint og birt viðkvæmar upplýsingar um Pál Sverrisson, sem stendur í málaferlum vegna ólögmætrar birtingar persónuupplýsinga um hann. Héraðsdómur Reykjaness endurbirti upplýsingar um Pál um leið og dómurinn dæmdi honum bætur fyrir birtingu sömu upplýsinga.

Færslur úr sjúkraskrá birtar í Læknablaðinu

Páll Sverrisson hefur árum saman leitað réttar síns hjá opinberum stofnunum eftir að upplýsingar úr sjúkraskrá hans voru birtar í úrskurði siðanefndar lækna haustið 2011.

Læknir hafði kvartað til nefndarinnar undan meintum óhróðri annars læknis í sinn garð, og vísaði þar í ummæli sem Páll sagðist hafa orðið vitni að. Sá sem var sakaður um ærumeiðingarnar notaði upplýsingar úr sjúkraskrá Páls sem hluta af málsvörn sinni. Upplýsingarnar rötuðu inn í úrskurðinn sem var birtur í Læknablaðinu.

Uppgötvaði að viðkvæmar upplýsingar voru á vefnum

Í janúar 2013 vann Páll í Héraðsdómi Reykjaness mál gegn Læknafélagi Íslands og ritstjóra Læknablaðsins og fékk dæmdar 300 þúsund króna skaðabætur.

Í fyrravor voru Páli síðan í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdar 100 þúsund króna bætur frá íslenska ríkinu, í ljósi þess að læknirinn hafði notað upplýsingar úr sjúkraskrá Páls með ólögmætum hætti. Páll áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar og krefst hærri bóta.

Síðar komst Páll að því að hann hefði verið nafngreindur í dómunum tveimur þegar þeir birtust á vefsíðum dómstólanna. Héraðsdómur Reykjaness hafði þar að auki birt í sínum dómi heilsufarsupplýsingarnar sem með sama dómi var verið að dæma Læknafélagið og ritstjóra Læknablaðsins fyrir að hafa birt. Héraðsdómur Reykjavíkur birti svo í sínum dómi í fyrra ýmsar upplýsingar um heilsufar Páls og önnur einkamál, allt undir nafni.

Persónuvernd skoðar málið

Páll kvartaði til Persónuverndar sem sendi bréf á báða dómstólana í febrúar. Rekstrarstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur segir í svari til Persónuverndar:

„Eftir skoðun telur Héraðsdómur Reykjavíkur að fallast megi á að dóminn hefði átt að nafnhreinsa og hreinsa af persónurekjanlegum upplýsingum fyrir birtingu. Þrátt fyrir ákvæði tilvitnaðra laga og birtingarreglna virðist svo sem eitthvað hafi farið úrskeiðis í framkvæmd birtingar dómsins og hann því birtur í heild. Bið ég hlutaðeigandi velvirðingar á þeim mistökum fyrir hönd [Héraðsdóms Reykjavíkur].“

Í svari Héraðsdóms Reykjaness segir meðal annars:

„Fallist er á að mistök hafi verið gerð þegar umræddur dómur var birtur á vef héraðsdómstólanna án þess að áður væru afmáð úr honum þau atriði sem kvörtunin tekur til.“

Líka nafngreindur á vef Hæstaréttar

Báðir dómarnir hafa verið fjarlægðir af vefsíðum dómstólanna, eftir að Páll benti sjálfur á að þar væru viðkvæmar upplýsingar um hann. Við vinnslu fréttarinnar kom svo í ljós að Hæstiréttur hefur líka birt persónugreinanlegar upplýsingar um Pál á sinni vefsíðu.

Þetta gerðist þegar Hæstiréttur skar úr um hæfi héraðsdómara í máli Páls í fyrra. Þar er Páll nafngreindur og vísað með málsnúmeri í dóm Héraðsdóms Reykjaness frá 2013, þar sem heilsufarsupplýsingarnar um Pál voru öllum aðgengilegar.

Málinu er ekki lokið. Persónuvernd sendi fyrir helgi bréf á Dómstólaráð, sem heldur úti vefsíðu dómstólanna, og kallaði meðal annars eftir þeim reglum sem giltu um birtingu dóma þegar fyrri dómurinn féll 2013. Svars er vænst í næstu viku.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV