Dómstóla að meta hvort umskurður sé löglegur

17.10.2018 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endanlegt mat á lögmæti umskurðar á kynfærum drengja liggur hjá íslenskum dómstólum, segir Sigríður Andersen dómsmálaráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Silja Dögg spurði hvort heimilt væri að framkvæma umskurð á kynfærum drengja ef ekki liggja fyrir læknisfræðilegar ástæður eða rök fyrir þörf áslíku óafturkræfu inngripi.

Ráðherra svaraði því til að í íslenskum lögum er ekki að finna ákvæði sem beinlínis fjalla um umskurð á kynfærum drengja „en af því leiðir að aðgerðir af því tagi eru þar hvorki sérstaklega heimilaðar né bannaðar. Ekki hefur, svo ráðherra sé kunnugt um, reynt á það fyrir dómstólum hvort aðgerðir sem fela í sér umskurð á kynfærum drengja samræmist íslenskum lögum.“ 

Þá telur ráðherrann það alls óvíst hvort umskurður á kynfærum drengja gæti fallið undir verknaðarlýsingu 218. eða 217. gr. almennra hegningarlaga, þar sem fjallað er um líkamsárási.

Ráðherra segist ætla að halda áfram að fylgjast með þessari umræðu. Mikilvægt sé að það álitaefni hvort og þá hvenær foreldrar geta tekið ákvörðun um ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama barna sé skoðað heildstætt út frá réttindum og hagsmunum barna. „Á það ekki einungis við um umskurð drengja af trúarlegum eða menningarlegum ástæðum heldur einnig aðgerðir á ungbörnum með ódæmigerð kyneinkenni og aðrar ónauðsynlegar aðgerðir á kynfærum barna. Þau mál eru nú þegar til skoðunar innan velferðarráðuneytisins í tengslum við frumvarp um kynrænt sjálfræði,“ segir ráðherrann.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi