Dómi vegna ærumeiðinga á Facebook snúið við

Hæstiréttur Íslands.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Hæstiréttur sneri í dag við dómi héraðsdóms Vesturlands þar sem kona var dæmd til að greiða sekt vegna ærumeiðinga. Héraðsdómur hafði einnig dæmt ákveðin ummæli, sem konan lét falla á Facebook, dauð og ómerk.

Málið var höfðað vegna ummæla íbúa í Eyja- og Miklaholtshreppi í nóvember 2013. Íbúinn lét ýmis ummæli falla um þáverandi oddvita hreppsins á Facebook-síðu sinni. Oddvitinn var meðal annars sakaður um að smjaðra fyrir Ólafi Ólafssyni, sem oftast er kenndur við Samskip og á jörð í sveitinni.

Enda gaf Ólafur honum nýjan traktor (mútur eða hvað?)

skrifaði íbúinn á Facebook-síðu sinni. Ríkissaksókari ákærði konuna vegna þessara ummæla.
Héraðsdómur Vesturlands dæmdi ákærðu til þess að greiða 50 þúsund krónur í sekt auk þess sem ummælin voru dæmd dauð og ómerk. Ákærða áfrýjaði dómnum og krafðist sýknu.

Í dómi Hæstaréttar segir að orðin sem ákært er vegna, hafi ekki falið annað í sér en gildisdóm hennar. Orð um að oddvitinn hafi fengið traktor að gjöf, hafi að vísu falið í sér fullyrðingu, en hún hafi byggst á orðrómi í sveitinni. Þá hafi spurning um mútur verið innan sviga og verði því að skilja hana sem óljósa ályktun eða getgátur. Ummælin eru því ekki ómerkt og kröfu um refsingu vísað frá dómi. Þá greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi