Dómari hafnar beiðni Weinstein og segist ekki vanhæfur

09.01.2020 - 23:11
epa08107993 Former Hollywood producer Harvey Weinstein (C) responds to a reporter's questions as he arrives for the first day of his criminal trial at New York State Supreme Court in New York, New York, USA, 06 January 2020. The trial, which is expected to last for about eight weeks, is based on sexual assault and rape allegations of two women.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
James Burke, dómari á Manhattan, hefur hafnað beiðni Harvey Weinstein um að segja sig frá kynferðisbrotamáli kvikmyndaframleiðandans þar sem hann sé vanhæfur. Burke húðskammaði Weinstein í réttarsal í vikunni fyrir að vera stanslaust í símanum og hótaði að stinga honum í steininn fyrir að virða ekki reglur dómstólsins.

New York Times greinir frá þessu.

Verjendur Weinstein kröfðust þess að Burke segði sig frá málinu eftir að hann skammaði kvikmyndaframleiðandann fyrir símanotkun. Dómarinn væri augljóslega vanhæfur eftir upphlaupið þar sem hann hefði hótað Weinstein ævilangri fangelsisvist fyrir að vera alltaf í símanum. 

Burke hafði ekki mörg orð um kröfuna. Það væri ekkert skaðlegt að flytja smá reiðilestur yfir þvermóðskufullum sakborningi sem færi ekki eftir settum reglum.  „Auðvitað ætlaði ég ekki að setja hann í ævilangt fangelsi heldur var hugmyndin að hræða hann þannig að hann myndi einfaldlega hætta í símanum.“

Weinstein er ákærður fyrir fimm kynferðisbrot og er búist við að réttarhöldin standi í 8 vikur. Verjendur og saksóknari eiga eftir að takast á um val á kviðdómendum en það gæti tekið hálfan mánuð. Þá hefur Weinstein verið ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn tveimur konum í Los Angeles. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi