Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Dómari ákveður sig á næstu dögum

11.03.2013 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Davíð Örn Bjarnason situr enn í fangelsi í Tyrklandi. Aðalræðismaður Íslands í Tyrklandi, segir að dómari ákveði á morgun eða miðvikudag hvort honum verður sleppt úr haldi áður en réttarhöldin fara fram.

Selim Sariibrahimoglu, aðalræðismaður Íslands í Tyrklandi, segir að það sé einkum þrennt sem valdi því að Davíð hafi verið hnepptur í fangelsi; hann hafi ekkert fast heimilisfang í Tyrklandi, eðli glæpsins og sú staðreynd að hann býr utan Tyrklands sem er talið auka hættuna á að hann reyni að yfirgefa landið.

Selim segir að lögfræðingar hans reyni að fá réttarhöldunum flýtt eins mikið og hægt er og að þau geti farið fram eftir tvær til þrjár vikur. Viðurlög í Tyrklandi við því að reyna að smygla fornminjum út úr landinu eru þriggja til sex ára fangelsi.

Selim segir að Davíð hafi fengið leyfi til að hringja í móður sína, konu og börn í dag og að það bæti vonandi líðan hans, sem sé, eðli málsins samkvæmt, ekki góð.