Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Djass er frelsi

Mynd: RÚV / RÚV

Djass er frelsi

20.09.2018 - 11:31

Höfundar

„Við erum öll í grunninn djassarar, erum öll djassbörn. Hljómsveitin spilar kannski ekki djass eins og fólk heldur að djass sé en þetta er djasskotin tónlist. Það er djass í poppinu, djass er frelsi,“ segir Una Stef sem heimsótti Stúdíó 12 á dögunum með hljómsveit sinni, degi áður en þau komu fram á Jazzhátíð Reykjavíkur.

Tónlistarkonan Una Stefánsdóttir hefur upp á síðkastið vakið mikla athygli fyrir tónlist sína en hún hefur gefið út nokkra léttfönkaða, djassskotna sálarsmelli síðustu misseri sem notið hafa hylli hlustenda Rásar 2. Una gaf út Songbook árið 2014, sína einu stóru plötu hingað til. Þar líkt og nú daðrar hún í sínum tónsmíðum við popptónlist, fönk, R&B og sálartónlist en vill sjálf meina að allt sé þetta í grunninn djass.

„Það hafa núna komið út þrjú lög, ég er alltaf að safna í eitthvað, gef út eitt lag og gleymi mér... ég er allur athyglisbresturinn sko. Nú þurfum við að gera eitthvað fókuserað, ef einhver úr hljómsveitinni segir mér að gera eitthvað, þá geri ég það,“ segir Una. Una byrjaði sex ára gömul í tónlistarnámi og lærði á píanó, þverflautu og klassískan söng. Síðar lá leiðin í Tónlistarskóla FÍH en hún útskrifaðist þaðan árið 2014 með burtfararpróf í jazzsöng. „Ég tók nú einu sinni þátt í Músiktilraunum, var alltaf fengin til að syngja í rapplögum. Það var skemmtilegt tímabil, áður en að rapp varð kúl. Eitt sinn hituðum við upp fyrir Basshunter á Broadway, svona hópur af röppurum og ég að syngja í einu horninu. Hip-hoppið er nefnilega, eins og r&b, fönk, soul og allt það, saman í grunninn einfaldlega djass.“

Í hljómsveit Unu Stef eru Daníel Helgason sem spilar á gítar, Albert Sölvi á barítonsaxófón, Elvar Bragi á trompet og flygilhorn, Sólveig Morávek á tenórsaxófón, Sólrún Mjöll Kjartansdóttir á trommur og Baldur Kristjánsson á bassa. Þau glöddu hlustendur með lögunum Like Home, I'm Yours og The One auk þess sem þau tóku ábreiðu af lagi Beyoncé, If I were a Boy í djassútsetningu Elvars Braga Kristjánssonar. Það var Óli Palli sem tók á móti hljómsveit Unu Stef og spjallaði við Unu á milli laga.