Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dilkadrættir í mannlegum samskiptum

Mynd:  / 

Dilkadrættir í mannlegum samskiptum

17.03.2019 - 16:15

Höfundar

„Alltaf þegar við hittum annað fólk verðum við einhvern veginn að skilja hvaðan það kemur, þannig að við setjum það í hólf. En sum þessara hólfa geta verið erfið og óréttlát,“ segir Ásta Kristjana Sveinsdóttir, prófessor í heimspeki við háskólann í San Francisco.

Nýlega kom út bók hennar, Categories We Live By: The Construction of Sex, Gender, Race, and Other Social Categories, hjá Oxford-háskólaútgáfunni.
Ásta segir að eflaust mætti nefna bókina Dilkadrætti á íslensku, enda fjalli hún um þá flokkun sem við notum dags daglega til að skilgreina fólk og draga það í dilka.

Mynd með færslu
Bók Ástu kom nýlega út hjá Oxford-háskólaútgáfunni.

Kenning Ástu, sem hún kallar veitingahyggju, á að skýra það hvernig flokkar fólks geti verið félagsbyggðir eða félagsmótaðir, flokkar eins og kyn og kynþættir, en einnig aðrar flokkar eins og það að vera fatlaður eða flóttamaður.

„Það er eitt að vera að flýja eigið land út af einhverjum hörmungum en svo er annað að fá stöðu sem flóttamaður í félagslegum aðstæðum - þar sem fólk kemur öðruvísi fram við þig ef það heldur að þú sért flóttamaður. Ég skýri það sem svo að þú hafir tvo eiginleika. Grunneiginleikinn er að þú ert að flýja eigið land. Svo ef fólk heldur að þú hafir þennan eiginleika þá veitir það þér annan eiginleika, sem er staða sem setur þér skorður eða veitir þér aukið svigrúm til athafna. Kannski vill enginn tala við þig, eða ekki einu sinni koma við þig, eða það er stöðugt reynt að hjálpa þér á einhvern hátt. Þannig að í þessu tilfelli er það að vera flóttamaður eiginleiki sem hefur félagslega þýðingu,“ segir Ásta.  

„Með því að greina þetta í tvennt, tala um grunneiginleika og veitta eiginleika, þá getum við farið að spyrja: er réttlætanlegt að viðkomandi hafi þessa stöðu vegna þess að talið er að hann hafi þennan grunneiginleika?“

Kynstaða ætti að skipa minni sess

„Um leið og þú ferð að flokka fólk kemur einhvers konar mismunun, stundum er hún réttlætanleg en stundum ekki,“ segir Ásta. „Í bókinni hef ég mestan áhuga á þeim flokkunum sem eru óréttlátar og eiga að mínum dómi að skipa minni sess í samfélaginu,“ segir hún og nefnir til dæmis kynstöðu.

„Við erum sett í kyn út frá því hvaða líkamshluta er talið að við séum með. Þegar við erum að fylla út eyðublöð þá er alltaf verið að tala um þessa kynstöðu, jafnvel þegar það kemur málinu ekki neitt við. Ég kalla svoleiðis flokkun styttiflokkun, það er verið að stytta sér leið. Kynstaða skýrir alls konar félagslega hluti en skýrir ekki neina líkamlega hluti. Það sem skýrir það líkamlega er hvort þú sért með ákveðin kynfæri, ákveðin hormón eða litninga.“