Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Deutsche Bank kaupir Icesave-kröfur

27.08.2014 - 10:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Seðlabanki Hollands hefur selt Deutsche Bank kröfur sínar á hendur Landsbankanum vegna Icesave. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef hollenska seðlabankans, sem fyrst var greint frá á Kjarninn.is.

Í svari hollenska fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að hollenska ríkið hafi með sölunni endurheimt allt það fé sem það greiddi til innstæðueigenda í Icesave þegar Landsbankinn féll 2008. Heildarkrafan nemi jafnvirði um 219 milljörðum íslenskra króna. 124 milljarðar hafi fengist frá slitastjórn gamla Landsbankans en nú hafi afgangurinn, rúmir 95 milljarðar króna, verið endurheimtur með sölu kröfunnar.

Rætt hvort sveitarfélög selji líka kröfur

Fram kemur í yfirlýsingu hollenska fjármálaráðuneytisins að salan tryggi einnig að hollenskir bankar endurheimti nærri 32 milljarða króna sem þeir hafi lagt til vegna Icesave.Ráðuneytið segir einnig að frjálst sé að selja kröfur á hendur gamla Landsbankanum. Það hafi sveitarfélög í Bretlandi gert fyrr á þessu ári. Þá sé hollenska ríkið í viðræðum við sveitarfélög í Hollandi, sem eiga kröfur á gamla Landsbankann, um að veita þeim ráðgjöf ákveði þau að selja sínar kröfur.

 

Tilkynning hollenska Seðlabankans.