Framkvæmdir við nýjan hluta Dettifossvegar í Kelduhverfi hafa frestast vegna jarðhræringanna í Bárðarbungu. Verktakinn fékk ekki leyfi til að hefja efnisvinnslu í námu við Jökulsá á Fjöllum.
Í byrjun september stóð til að hefja vinnu við fyrsta áfangann af síðari hluta nýs Dettifossvegar, vestan Jökulsár á Fjöllum. Um er að ræða vegagerð frá þjóðveginum í Kelduhverfi, áleiðis að bænum Tóvegg, um 3,5 kílómetra leið.
Vegagerðin hefur samið við Árna Helgason verktaka. Kostnaðaráætlun nemur 133 milljónum króna. Vinna átti efni í veginn í námu á söndunum við Jökulsá, neðan brúarinnar í Öxarfirði. Vegna hugsanlegrar flóðahættu, komi til eldgoss í Bárðarbungu, fékkst ekki leyfi til að nýta þessa námu.
Árni sagðist í samtali við fréttastofu vera að skoða aðra efnisnámu svo hann geti hafist handa sem fyrst. Hann vonast til að vegagerðin hefjist eftir tvær vikur eða svo.