Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Delta hættir við flug frá Minneapolis

18.12.2014 - 22:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríska flugfélagið Delta hætti við flug á milli Keflavíkur og Minneapolis næsta sumar, þar sem félagið fékk ekki afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli. Upplýsingafulltrúi Isavia segir að neitunin hafi verið í samræmi við úthlutunarreglur.

Bandaríska flugfélagið Delta, sem er næststærsta flugfélag heims, flaug hingað til lands frá New York í sumar. Flogið var daglega í þrjá og hálfan mánuð, með 167 sæta Boeing 757 þotu.

Ólafur Hauksson, talsmaður Delta á Íslandi, segir að um 15.000 manns hafi komið með flugfélaginu til Íslands síðastliðið sumar. Aftur verður flogið frá New York til Keflavíkur næsta sumar.

Delta stefndi að því að færa út kvíarnar, og hefja flug á milli Minneapolis og Keflavíkur næsta sumar. Olivia Cullis, talsmaður flugfélagsins, segir hins vegar að þar sem ekki hafi boðist ásættanlegur afgreiðslutími í Keflavík, hafi félagið hætt við þau áform.

Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, staðfestir að Delta hafi sótt um afgreiðslutímann, en ekki fengið hann, sem sé í samræmi við úthlutunarreglur.

EFTA-dómstóllinn komst nýverið að þeirri niðurstöðu, að samkeppnisyfirvöld megi grípa til aðgerða þegar úthlutun afgreiðslutíma er talin valda samkeppnishindrunum. WOW Air höfðaði málið upphaflega, þar sem félagið taldi að Icelandair fengi bestu tímana á meðan aðrir mættu afgangi. Málið er nú til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.