Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Deilt um tekjuöflun borgarinnar

01.12.2010 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrir liggja umtalsverðar hækkanir á gjöldum vegna ýmissar þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar. Jón Gnarr, borgarstjóri, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, ræddu mismunandi leiðir til tekjuöflunar í Reykjavík í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld.

Horfa á umræðurnar í Kastljósinu

Jón segir að nauðsynlegt sé að fara blandaða leið í aukinni tekjuöflun borgarinnar. Hann segir að búið sé að skoða í þaula hvernig hægt sé að sækja auknar tekjur fyrir borgina. Hanna Birna er ekki sammála þessu og segir að betra sé að hagræða í rekstrinum en að hækka skatta og gjöld.

Reiknuðum okkur fram og aftur

 „Okkur sýndist ákjósanlegast að fara blandaða leið... Við erum að reka kerfi sem er vissulega gott en höfum við núverandi aðstæður ekki efni á að reka það nægilega vel þannig að við völdum þessa leið til þess að mæta því. Við erum búin að reikna okkur fram og aftur og höfum komist að þessari niðurstöðu.“ Sagði Jón þegar hann var spurður út í kosningaloforð Besta flokksins um það að ekki væri á dagskrá að hækka skatta og gjöld.

Hagræðingu í stað hækkana

Hanna Birna talaði fyrir því að heldur eigi að draga saman útgjöld borgarinnar með hagræðingu í stað þess að hækka útsvar borgaranna sem megi ekki við því. „Það Þarf fyrst og fremst að taka ákvörðun um að fara ekki þessa leið. Hún er ekki góð heldur beinlínis slæm fyrir borgarbúa sem þola ekki meira... Þarna úti er fólk sem ræður ekki við þennan kostnað.“ Sagði Hanna Birna og bætti við að borgin standi betur en flest sveitarfélög. Reykjavík eigi 18 milljarða í eigið fé, eða 150.000 á hvern Reykvíking. Þetta fé segir hún að þurfi að nýta íbúunum til hagsmuna.

Í framhaldi af þessu benti Jón á að ný útgjöld komi til, t.d. með fjölgun barna í borginni. Þá sé borgin bakhjarl Orkuveitu Reykjavíkur og gera þurfi ráð fyrir að eitthvað af milljörðunum 18 fari í verkefni sem borgin er ábyrg fyrir. „Við þurfum að eiga handbært fé til að standa straum af framkvæmdum sem liggja fyrir... Það eru mörg atriði sem enn er óvissa um“ Bætti Jón við

Fjárhagsáætlun borgarinnar verður rædd í borgarstjórn eftir tvær vikur.