Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Deilt um stöðu þjóðkirkjunar

10.10.2012 - 22:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Biskup Íslands segir þjóð og kirkju hafa átt langa og farsæla samleið. Ákvæði um þjóðkirkju eigi áfram að vera bundið í stjórnarskrá. Þetta kom fram á fundi Stjórnarskrárfélagsins í kvöld.

Stjórnarskrárfélagið boðaði til fundar um þjóðkirkjuna og nýja stjórnarskrá í kvöld en tíu dagar eru þar til þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur að nýrri stjórnarskrá fer fram. Á kjörseðlinum verða bornar upp sex spurningar. Ein þeirra lýtur að þjóðkirkjunni en spurt er: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Skiptar skoðanir voru meðal frummælenda á fundinum um mikilvægi þess að þjóðkirkjunnar væri getið í stjórnarskrá. 

Valgarður Guðjónsson, hugbúnaðarsérfræðingur og frummælandi á fundinum segir að ekki eigi að vera ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá. „Það skiptir máli að taka það út því þjóðkirkja byggir á þessu ákvæði. Það á auðvitað ekkert að vera ríkisrekin stofnun, upp á fleiri fleiri milljarða af almannafé, um persónulegar skoðanir fólks.“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir stjórnarskrána samfélagssáttmála og um hann þurfi að ríkja sátt. „Kirkja og þjóð hafa átt langa og farsæla samleið og auk þess hefur kristin trú mótað hugsunarhátt okkar og siði og venjur. Þess vegna tel ég þetta mjög mikilvægt.“