Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Deilt um helgidagafriðinn

28.12.2015 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stóraukinn straumur ferðamanna yfir jólahátíðina og breytt samfélag kallar á að lögum um helgidagafrið verði breytt, segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Því er formaður Starfsgreinasambandsins ósammála og óttast að vinnuálag á launafólk aukist, það sé þegar mjög mikið fyrir jólahátíðina.

Lög um helgidagafrið eiga rætur í lagabálkinum Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar í Skálholti frá 1275. Árið 1926 voru svo sett lög um almannafrið á helgidögum í þeim segir: „Á helgidögum þjóðkirkjunnar er bönnuð öll sú vinna, úti og inni, er hefur hávaða í för með sér eða fer fram á þeim stað eða með þeim hætti, að hún raskar friði helgidagsins.“

Lögin breyttust 1997 í lög um helgidagafrið og segir þá að markmið þeirra sé að „vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar.“ Áfram eru skemmtanir og verslunarstarfsemi óheimil. 

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði í fréttum RÚV í fyrradag að hún teldi lögin barns síns tíma og vill að þeim verði breytt. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur undir það. „Já, ég held að það sé full ástæða til þess að taka þetta til skoðunar. Samfélagið hefur breyst mjög mikið hjá okkur á undanförnum árum og áratugum auðvitað og við sjáum að hér er stóraukinn straumur ferðamanna yfir hátíðirnar. Og mjög breytt samsetning íbúa, hvað varðar trúarbrögð og annað þess háttar,“ segir Þorsteinn.

Hann segir ástæðulaust að óttast að starfsfólki verði hótað uppsögn vilji það ekki vinna á aðfangadagskvöld eða aðra helgidaga. „Nei, ég held að það sé lítil hætta á því. Ég held að almennt hafi menn skilning á því að fyrir það fyrsta að það sé ekki verið að hafa opið á þessum dögum nema brýna nauðsyn beri til og það sé þá gott samkomulag við starfsfólk hvernig sé verið að manna þá vinnustaði,“ segir Þorsteinn. 

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, er hins vegar ósammála því að lögin um helgidagafrið séu orðin úrelt. Hann bendir á að mikið vinnuálag sé á starfsfólki fyrir jólahátíðina og óttast að vinnuálagið aukist enn frekar þurfi fólk að vinna um sjálf jólin. Þó svo að það megi ræða málið við atvinnurekendur segir Björn að Starfsgreinasambandið sjái ekki annmarka á lögunum.