Deilt um forgangsröð í Hvalfjarðarsveit

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vatnsveitu, fjölnota íþróttahús og leikskóla nefna efstu manneskjur framboða í Hvalfjarðarsveit sem helstu mál þar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þær greinir á um hvað eigi að hafa forgang.

Áframlistinn (Á), Hvalfjarðarlistinn (H) og Íbúalistinn (Í) kljást um hylli kjósenda í kosningunum. Allir listarnir vilja skoða hitaveitumál sveitarfélagsins í þaula þar sem heitt vatn vantar á þó nokkrum stöðum og reyndar kalt líka. Meðal annars vantar heitt vatn sums staðar í Leirársveit og brúa þarf bilið frá Miðgarði að Grundartanga. Ekki er heitt vatn að hafa hjá Orkuveitunni fyrir Hvalfjarðarsveit, að minnsta kosti ekki að óbreyttu, og því þarf að finna önnur úrræði. Væntanlega verður borað eftir heitu vatni á Eyri í Svínadal þar sem hitastigulsborun hefur gefið góð fyrirheit. Vonir standa til að þar finnist nægt heitt vatn fyrir það sem upp á vantar. Fleiri möguleikar eru einnig til skoðunar.

Brynja Þorbjörnsdóttir leiðir Hvalfjarðarlistann sem vill að bæði köldu og heitu vatni verði komið til allra í sveitarfélaginu frekar en ráðist verði í byggingu fjölnota íþróttahúss. „Við viljum fyrst af öllu bæta úr þessu áður en til annarra framkvæmda kemur. Það er fyrirsjáanlegt að við höfum ekki nægt heitt vatn til að kynda nýtt fjölnota íþróttahús við Heiðarskóla og mér finnst ekkert vit í að nota rafmagn til þess.“

Daníel A. Ottesen leiðir Áframlistann sem leggur áherslu á að bæta íþróttaaðstöðuna. „Núverandi hús er barn síns tíma, orðið meira en hálfrar aldar gamalt og þarfnast margþætts viðhalds sem kostar sitt. Með nýju húsi aukum við lífsgæðin því það nýtist öllum aldurshópum utan skólatíma fyrir margs konar viðburði, æfingar og tómstundastarf.“

Ragna Ívarsdóttir leiðtogi Íbúalistans segir að það sé grunnforsenda fyrir byggingu íþróttahússins að það fáist heitt vatn til að hita upp. Ekki sé forsvaranlegt að gera það með rafmagni. „Húsið sem slíkt yrði þó af hinu góða. Afdrep fyrir alla jafnt unga sem aldna og myndi meðal annars nýtast fyrir félagsstarf aldraðra.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Íbúalistinn talar fyrir auknu lýðræði og opnari stjórnsýslu en ásamt hitaveitu sé þó brýnast að leysa leikskólamálin. „Leikskólinn er fullsetinn og fyrirsjáanlegt að hann verður að stækka í nánustu framtíð. Það stendur framtíð sveitarfélagsins fyrir þrifum að ekki sé leikskólapláss fyrir fleiri börn,“ segir Ragna. Brynja segir að þegar að því komi þá verði einfaldlega ráðist í þessar framkvæmdir. „Það hafa verið vandræði að manna leikskólann með faglærðu fólki en nú er ætlunin að breyta því. Við viljum búa vel að bæði leikskólanum og grunnskólanum svo þeir verði í fremstu röð á landsvísu og eftirsóknarvert að eiga barn hér.“

Samþykkt var á sveitarstjórnarfundi í gær að fara í tilraunaverkefni til tveggja ára sem felst í að stytta vinnuvikuna á leikskólanum um fimm klukkustundir á viku til að minnka álag á starfsfólk. Ekki á að skerða þjónustuna heldur fjölga starfsmönnum. „Meginmarkmiðið er að bæta þjónustuna og laða fólk til starfa. Við búumst við fjölgun í sveitarfélaginu og þetta er því nauðsynlegt,“ segir Daníel hjá Áframlistanum.

Sveitarsjóður var rekinn með 67,5 milljóna króna afgangi í fyrra og allar lífeyrisskuldbindingar þá einnig að fullu greiddar upp á tæpar 28 milljónir króna. Björgvin Helgason oddviti segir að reksturinn hafi verið í járnum árin þar á undan eftir miklar framkvæmdir og fjárfestingar í kjölfar sameiningar árið 2006. Hann skipar 4. sæti Áframlistans sem frambjóðendur listans líta á sem baráttusætið. Sjö sitja í sveitarstjórninni.

„Við ætlum að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði,“ segir Daníel. „Sú aðgerð nýtist öllum eigendum íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Í dag er útsvarsprósentan í Hvalfjarðarsveit 13,14% sem er sú fjórða lægsta á landinu og við viljum standa vörð um að hún verði ekki hækkuð.“

Ragna segir ljóst að miklar framkvæmdir séu fram undan og að álögur verði ekki lækkaðar á íbúa á meðan svo sé. Þá þurfi að kanna rekstrargrundvöll félagsheimilanna þriggja í sveitinni sem skili sveitarsjóði litlu. „Við viljum fara í saumana á því og hvort við þurfum að eiga þau.“

Hvalfjarðarlistinn vill sníða sér stakk eftir vexti í framkvæmdum og þær leiði ekki til hækkunar útsvars. Þá segir Brynja að þar sé ekki vilji fyrir meiri mengandi stóriðju á Grundartanga. „Við viljum frekar að lítil og meðalstór fyrirtæki taki þar til starfa.“ Þá vill hún bæta upplýsingagjöf til íbúa sem hún segir hafa verið mjög takmarkað. Til dæmis eigi að bjóða þeim á fund fyrir gerð fjárhagsáætlunar til að þeir geti lagt sitt til málanna.

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi