Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Deildu hart um veiðgjaldið í Vikulokunum

09.06.2018 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn vera ósáttan við niðurstöðuna í veiðigjaldamálinu . Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir málið sýna „ótrúlega forgangsröðun“ ríkisstjórnarinnar og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði þessa leiðréttingu vera enn eina „leiðréttingu fyrri þá sem eiga meira.“ Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, hrósaði forsætisráðherra fyrir framgöngu sína í málinu.

Veiðigjaldamálið var fyrirferðamikið í Vikulokunum á Rás 1 í morgun en samkvæmt samkomulagi um þinglok var fallið frá tillögu um lækkun veiðigjalda. Frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar olli hörðum deilum á Alþingi þegar það var lagt fram. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagði þingflokk Sjálfstæðisflokksins ekki vera sáttan við þessa niðurstöðu og það væri samdóma álit þingmanna flokksins að mikilvægt væri að leiðrétta veiðigjaldið. Umræðan um veiðigjaldið hefði farið fram á röngum forsendum, gefið hefði verið í skyn að gjaldið ætti að lækka gríðarlega en svo væri ekki heldur væri þetta leiðrétting.

Áslaug sagði mikilvægt að gjaldið fylgdi afkomu í greininni því annars væru forsendur afnotagjalds fyrir auðlind brostnar. Málið verði aftur lagt fyrir þingið í haust þar sem samdráttur væri í sjávarútvegi og gjaldið mætti ekki sliga greinina. „Það er auðvitað bara verkefni okkar stjórnmálamanna að vinna fyrir hagsmuni atvinnulífsins, gæta þess að hér gangi atvinnugreinar vel og að þetta kerfi sé sanngjarnt,“ sagði Áslaug Arna.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði málið sýna „ótrúlega forgangsröðun“ ríkisstjórnarinnar, að reyna að lækka veiðigjaldið svo skömmu fyrir lok þings. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafi skilað gríðarlegum hagnaði undanfarin ár og það væri stefna Samfylkingarinnar að þau leggðu meira til í sameiginlega sjóði þjóðarinnar. Til að mynda væri veiðigjaldið einungis um 1% af tekjum ríkissjóðs.

„Fyrirtæki vissu að það átti að greiða veiðigjald af afkomu 2015 þremur árum seinna þannig að þau áttu að leggja fyrir. Það má því ekki koma hérna þremur árum seinna og ætla að breyta reglunum, afturvirkt, eftir á, á kostnað almennings. Það bara gengur ekki,“ sagði Ágúst.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að leiðréttingu á veiðigjaldinu vera „enn önnur leiðrétting fyrir þá sem eiga meira“. Fram hefði komið í máli atvinnuveganefndar að skipting ágóðans af sjávarútvegi væri um 60/40, þar fengi ríkissjóður 60 prósent og 40 prósent færu í vasa eigenda sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta væri stóra málið í umræðunni um veiðigjöld, hvort þessi skipting væri sanngjörn.

Í Noregi væri skipting ágóða af olíuvinnslu þannig að milli 90 og 95 prósent ágóða rynni í ríkissjóð. Björn Leví velti því fyrir sér hver væri „sanngjörn skipting milli þjóðar og þeirra sem að nýta auðlindina“  

Rósa Björk þingkona Vinstri grænna sagði umræðuna um lækkun veiðigjalda hafa reynst flokknum erfið.  Ekki hefði átt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert var heldur hefði sjávarútvegsráðherra átt að leggja málið fram, ekki meirihluti atvinnuveganefndar.

Hún hrósaði forsætisráðherra fyrir framgöngu sína í málinu en sagðist ósammála Lilju Rafney Magnúsdóttur sem talað hefur fyrir lækkun veiðigjaldsins.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV