Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Deila um hvort skera þurfi niður í Fjarðabyggð

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Í Fjarðabyggð en eru fjármálin og rekstur sveitarfélagsins á meðal helstu kosningamála. Fjarðabyggð er fjölmennasta sveitarfélagið á Austurlandi og íbúarnir eru orðnir tæplega fimm þúsund eftir að samþykkt var að sameina Fjarðabyggð og Breiðdalshrepp.

Miklar tekjur en dýr rekstur

Skuldir eru komnar niður fyrir lögbundið 150% viðmið. Þar munar um sterkan hafnarsjóð sem hefur talsverðar tekjur af umsvifum álversins á Reyðarfirði og stórra sjávarútvegsfyrirtækja. Sjálfur bæjarsjóður hefur hins vegar ekki skilað miklum afgangi og reksturinn verið í járnum. Samkvæmt ársreikningi 2014 var A-hluti bæjarsjóðs rekinn með 72 milljóna króna tapi. Árið 2015 skilaði hann 29 milljóna hagnaði, árið 2016 var tapið 65 milljónir og árið 2017 skilaði A-hluti 10 milljóna króna afgangi. Sveitarfélagið hefur haldið úti þjónustu í sex byggðakjörnum en stærstur er Neskaupstaður. Aðrir kjarnar eru Reyðarfjörður, Eskifjörður, Mjóifjörður, Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður. Nú bætist Breiðdalsvík við sem sjöundi byggðakjarninn. Árið 2016 voru meðaltekjur hæstar í Fjarðabyggð af öllum sveitarfélögum landsins.

Fjögur framboð vilja komast til valda í Fjarðabyggð í þessum kosningum. Framsókn og óháðir hafa setið í meirihluta ásamt Sjálfstæðisflokknum en Fjarðalistinn hefur verið í minnihluta. Í síðustu kosningum fékk hver flokkur þrjá menn kjörna en nú býður að auki Miðflokkurinn fram í fyrsta sinn.

Miðflokkurinn telur þörf á niðurskurði

Óhætt er að segja að tilkoma Miðflokksins hafi hrist upp í sveitarstjórnarpólitíkinni í Fjarðabyggð í aðdraganda kosninga. Oddviti flokksins, Rúnar Gunnarsson, hefur farið mikinn á framboðsfundum í sveitarfélaginu og gagnrýnt hvernig meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur að hans mati haldið um budduna. Austurfrétt hefur fjallað ítarlega um framboðsfundina og þar kemur fram að á fundi á Fáskrúðsfirði hafi Rúnar fullyrt að launakostnaður hefði hækkað óeðlilega mikið eða um 27% milli ára. Fulltrúar meirihlutans mótmæltu þessu og sögðu eðlilegar skýringar þar á bak við. Hækkun launaliðar í ársreikningi væri til komin vegna samkomulags um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum og þá hefði launakostnaður vegna starfsfólks á hjúkrunarheimilunum Hulduhlíð og Uppsölum verið tekinn inn í reikning bæjarins. Sérstaklega er fjallað um þetta í ársreikningi Fjarðabyggðar fyrir árið 2017 og þar kemur fram að án breytinga vegna lífeyrisskuldbindinga og hjúkrunarheimila hafi launaliður hækkað um 7,5% eða um 210 milljónir.

Á fundinum gaf oddviti Miðflokksins líka í skyn að starfsmenn Fjarðabyggðar væru óeðlilega margir. Einn starfsmaður á móti hverjum 14 íbúum samanborið við einn á móti 25 í Garðabæ. Rúnar var spurður nánar út í þetta á oddvitafundi RÚV á Rás 2 þann 17. maí. Þá sagði hann: „Ef ég segi það bara hreint út þá vil ég skera niður.“ Aðspurður um hvar hann vildi skera niður sagði hann. „Það þarf bara að skoða alla Fjarðabyggð, alveg eins og hún leggur sig. Það er klárt. Einn af hverjum 14 íbúum Fjarðabyggðar vinnur hjá Fjarðabyggð og það er ekki í lagi.“ Ekki hafi gengið nógu hratt að greiða niður skuldir að hans mati á árunum 2014-2017. 

Telja eðlilegt að starfsmenn séu margir í fjölkjarna sveitarfélagi

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, mótmælti þessari framsetningu: „Við erum að borga milljarð í vexti og afborganir á hverju ári þannig að við erum að greiða niður skuldir okkar við lánastofnanir. […] Varðandi sveitarfélagið Fjarðabyggð, þá er það um margt ólíkt öðrum sem eru einn kjarni með svipað marga íbúa og jafnvel fleiri. Við erum að reka sex skóla. Við erum að reka sex leikskóla. Við erum með íþróttahús og sundlaugar og þetta er rekstrarlega séð mjög erfitt sveitarfélag. En við höfum sýnt það að við ráðum við þetta. […] Forsendan fyrir því að getum staðið í þessum rekstri er að við búum við mjög öflugt og sterkt atvinnulíf í sveitarfélaginu. Það er í rauninni forsenda þess að við getum haldið uppi þessari þjónustu. […] Það eru til skólar í Reykjavík sem eru með jafn mörg börn og í sex grunnskólum Fjarðabyggðar,“ sagði Jens Garðar og hafnaði því að sóun ætti sér stað í stjórnsýslu sveitarfélagsins og að þar væri of mikil yfirbygging.

Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, sem setið hefur í minnihluta sagði að meiri- og minnihlutinn hefðu verið samtaka í því að taka á fjármálum sveitarfélagsins. „Við viljum halda áfram á þeirri vegferð og við teljum okkur geta samt farið í það sem við viljum gera núna með því að forgangsraða.“ Aðspurð um hvort rétt væri að halda úti öllum skólum sagði hún: „Já, það er mjög mikilvægt að standa vörð um skólana okkar og börnin okkar. Og við megum ekki gleyma því að skólarnir eru hjarta hvers samfélags,“ sagði Eydís.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknar og óháðra, sagði að það hefði verið einn af styrkleikum Fjarðabyggðar að bæjarstjórnin öll hefði verið samstíga í fjármálum. „Menn hafa farið í gegnum reksturinn. Ég tel að við séum að fara þá leið að reka með sóma þá þjónustu sem íbúarnir eiga skilið og það er síst ofhlaðið. Það þarf alltaf að vera að rýna rekstur, það er alveg hárrétt hjá Miðflokknum en að bera okkur saman við sveitarfélög sem eru fjórir ferkílómetrar eins og Vestmannaeyjar, það er ekki sanngjarnt,“ sagði Jón Björn á oddvitafundi RÚV. Hlusta má á fundinn í heild á kosningavef RÚV en þar voru frambjóðendur meðal annars spurðir út í kostnað við uppbyggingu vegna olíuleitar, umdeilt fiskeldi í Fáskrúðsfirði, samgöngumál og möguleika til vaxtar.

Skuldir lækkuðu um 348 milljónir frá 2014 

Árið 2014 skuldaði samstæða Fjarðabyggðar tæpa 9,3 milljarða en í lok ársins 2017 var skuldin rúmir 8,9 milljarðar. Hún hefði líkast til verið lægri, hefði rekstur hjúkrunarheimilanna ekki verið felldur inn í bæjarreikning um áramótin 2016-2017. Fram kemur í ársreikningi 2017 að við það hafi heildarskuldir hækkað um tæpar 214 milljónir. Hér má kynna sér ársreikninga Fjarðabyggðar.

Helstu áherslumál

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöld voru frambjóðendur beðnir að nefna helstu áherslumál.

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðarbyggð, sagði helstu áherslumálin þau að halda áfram að greiða niður skuldir. „Við erum búin að ná gríðarlegum árangri í þeim málum. En á sama tíma höfum við líka fjárfest fyrir marga milljarða og ætlum að halda áfram að fjárfesta. Við erum búin að byggja leikskóla á Norðfirði, erum að stækka á Reyðarfirði og erum að fara að stækka á Eskifirði. Og við höfum lagt mikla áherslu á það að leggja mikinn kraft og mikla fjármuni í íþrótta- og tómstundastarf, standa vörð um félagsþjónustuna og standa vörð um barnafjölskyldurnar í Fjarðabyggð,“ sagði Jens Garðar.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknar og óháðra, sagði: „Ég held að helstu áherslumál okkar í Framsókn og óháðum í þessum komandi sveitarstjórnarkosningum í nýrri Fjarðabyggð, verði eins og oft áður málefni fjölskyldunnar en líka hjúkrunarheimilin okkar, öldrunarmálin, fræðslumálin, menningin, allt sem við viljum gera til að gera gott samfélag enn betra. Samfélag sem heldur þétt um íbúa sína og opnar faðminn fyrir nýjum með jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi. Ég held að við getum öll verið sammála um að það sé það sem við erum að horfa á til næstu fjögurra ára,“ sagði Jón Björn.

Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans: „Fjarðalistinn er félagshyggjuframboðið í Fjarðabyggð. Við viljum reka sveitarfélagið vel en hugsa betur um fólkið okkar. Við viljum bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum. Auka aðgengi að fjölskylduráðgjöf og huga betur að andlegri líðan barnanna okkar. Við viljum hugsa vel um eldri borgara og öryrkja, styðja vel við atvinnulífið og nýsköpun á því sviði. Við viljum móta nýja og framsýna umhverfisstefnu og gera langtímaáætlanir um viðhald og uppbyggingu innviða sveitarfélagsins,“ sagði Eydís.

Rúnar Gunnarsson, oddviti Miðflokksins: „Við í Miðflokknum viljum að fólki líði vel í Fjarðabyggð. Það er gott að búa í Fjarðabyggð. Til þess að svo megi vera verðum við að lækka kostnað og greiða niður skuldir. Við viljum að börnin fái fríar skólamáltíðir í grunnskólum og leikskólar verði opnir allt árið. Við viljum einfalda stjórnsýsluna, vinna meira og tala minna,“ sagði Rúnar Gunnarsson.

Rétt er að vekja athygli á umfjöllun Austurfréttar um framboðsfundi í Fjarðabyggð.

Fundur á Eskifirði

Fundur á Reyðarfirði

Fundur á Stöðvarfirði

Fundur á Breiðdalsvík

Fundur á Fáskrúðsfirði

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV