Deila um framlög til rannsóknarsjóða

05.12.2013 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamenn sóttu hart að menntamálaráðherra á fundi vísinda- og tækiráðs í morgun vegna fyrirhugaðs niðurskurðar til sjóða Rannís. Menntamálaráðherra sagði framlög til rannsóknarsjóða Rannís á næsta ári þau hæstu sem hafa verið að þessu ári frátöldu.

Ný rannsóknarstefna var kynnt í morgun. Í stefnunni er meðal annars stefnt að því að auka framlög til vísindastarfa og að 200 launaðir doktorsnemar séu í háskólunum á ári. Á fundinum kom fram að stefnan teldist varla raunhæf í ljósi þess að skorið verður niður til sjóða Rannís á næsta ári. Ungir vísindamenn mótmæltu í pallborði fundarins með því að lyfta 40 spjöldum með stóru spurningamerki á, til marks um þann fjölda starfa sem tapaðist við niðurskurðinn. Undir lok fundarins var svo spurningum beint að Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra vegna niðurskurðarins. Hann benti á að til hafi staðið að rekstur ríkisins yrði í jafnvægi á þessu ári. „Niðurstaðan, það sem við stöndum frammi fyrir, er allt allt önnur,“ sagði Illugi og var þá kallað fram í að þetta væri sjálfskaparvíti. „Og nú er sagt hér sjálfskaparvíti. Ég ætla að fá að klára þetta. Það er ekkert sjálfskaparvíti þegar menn standa frammi fyrir því að tekjurnar eru minni en ætlað var.“

Eins og heyra má voru margir ósáttir við boðskap ráðherrans. En hann segir jafnframt að framlag til sjóðanna sé ekki lágt miðað við undanfarin ár. Þau hafi hækkað á þessu ári vegna verkefna í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. „Framlögin á næsta ári verða því ekki jafn há og á þessu ári, en þau verða samt umtalsvert hærri en þau voru árið 2012.“ Og reyndar þau hæstu í sögunni ef þetta ár er frátalið.

Erna Magnúsdóttir sérfræðingur í frumulíffræði við Háskóla Íslands, og einn mótmælenda, gefur lítið fyrir þessi orð. Langstærsti útgjaldaliðurinn séu laun og framlag þessa árs sé lægra miðað við launavísitölu ársins 2005. „Og núna þá erum við semsagt langt undir því sem það var 2005 þannig að það er hreinlega rangt að þetta sé næsthæsta framlag sem lagt hafi verið fram í rannsóknarsjóð.“

Erna segir það slæma stöðu ef áfram verður skorið niður þangað til betur árar. „Þá verður unga vísindafólkið farið, hvort sem það er til annarra starfa þar sem kraftar þeirra nýtast ekki eins vel, eða hreinlega bara til útlanda.“

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi