Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Deila um framlög til framhaldsskóla

15.10.2014 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Menntamálaráðherra segir rangt að verið sé að skera niður til framhaldsskólans í fjárlagafrumvarpinu, hið rétta sé að verið sé að auka framlögin. Þingmaður Samfylkingarinnar heldur öðru fram og segir stjórnvöld sýna mikla skammsýni í málefnum framhaldsskólans.

Oddný Harðardóttir fyrrverandi fjármálaráðherra var málshefjandi á Alþingi í dag í umræðu um takmarkað aðgengi að framhaldsskólum. Umræðuefnið er fækkun nemendaígilda samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem fjölmargir fullyrða að bitni langmest á landsbýggðinni.

Oddný segir um skyndákvörðun að ræða, lengi hafi verið þrengt að skólanum og nú væri leikið með tölur til að sýna að dæmið gangi upp. „Mér finnast stjórnvöld sýna mikla skammsýni og metnaðarleysi þegar þau vilja greiða fyrir kjarasamningum kennara með fjöldatakmörkunum í framhaldsskólann. Þar finnst mér vanta alla hugsun leyfi ég mér að segja og framtíðarsýn bæði í mennta og byggðamálum.“

Það var samhljómur í málflutningi stjórnarandstöðunnar á Alþingi í dag og stjórnarliðinn Elsa Lára Arnardóttir sagðist hafa áhyggjur af framhaldsskólanum eins og hann birtist í fjárlagafrumvarpinu og spurði hvort fækkun nemendaígilda væri vegna styttingar námsins og lagði til að staldrað yrði við. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði rangt að verið væri að skera niður heildaframlög til framhaldsskólans, verið væri að hækka framlögin. „Þegar það er talað um stöðu framhaldsskólans þá á að rifja það upp að framlag per nemenda árið 2011 fór niður í 890 þúsund krónur á hvern nemenda á verðlagi ársins í ár, en grunnskólaneminn kostaði eina og hálfa milljón, það kalla ég aðför að framhaldsskólakerfinu.“