Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Deila tónleikum með tveimur

Mynd: RÚV / Menning

Deila tónleikum með tveimur

27.10.2017 - 16:54

Höfundar

„Rými hefur rosalega mikil áhrif á mig sem tónlistarmanneskju og flytjanda. Tónlistin breytist mjög mikið eftir því hvernig rýmið er og á hvaða stað áhorfendur eru,“ segir Hildur Guðnadóttir tónskáld og sellóleikari. Hún er einn þeirra listamanna sem taka þátt í tónlistarhátíðinni Deilt með tveimur sem haldin verður í fyrsta sinn í Listasafni Reykjavíkur á laugardag.

Hátíðin er samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur og Rásar 1 og stefnt er að því að hún verði árviss viðburður. Í aðdragandanum var fjórum tónskáldum falið að velja tvo listamenn til samstarfs og upp úr því spruttu ólík tónverk. Þau verða frumflutt á laugardag í Hafnarhúsinu, í beinni útsendingu á Rás 1 og í myndstreymi á ruv.is.

Berglind María Tómasdóttir er einn skipuleggjenda hátíðarinnar en tekur einnig þátt sem tónskáld í einu verkinu. „Svo ég byrji á nafninu þá var lagt upp með að leita til fjögurra listamanna og biðja þá um að deila sínum tónleikum með tveimur, þannig að í öllum tilfellum eru þrír aðilar - í einu tilfelli fjórir - sem koma við sögu á hverjum tónleikum,“ segir hún.

Hildur Guðnadóttir valdi að vinna með listakonunum Margréti Bjarnadóttur og Elínu Hansdóttir. Aðspurð segir hún ástæðuna einfalda. „Ég bara dýrka þær báðar. Ég náttúrulega þekki þær báðar mjög vel og er mikill aðdáandi þeirra verka. Ég hef alltaf verið hrifin af því hvernig þær vinna með rými og skynjun. Það sem ég hef séð eftir þær báðar er alltaf upplifun. Maður oft veit ekki hvar maður er eða hvernig hlutirnir snúa.“

Hreyfing í lofti

Í verki sínu notast listakonurnar við óvenjulegt hljóðfæri, dórófón, en það er eitt dæmi um óhefðbundna tónlistarsköpun sem má finna í flestum verka hátíðarinnar. „Hugmyndin var að leggja áherslu á nýsköpun og nýja tónlist í svolítið víðu samhengi,“ segir Berglind María. „Hildur, Margrét og Elín leika sér til dæmis á mjög ólíka vegu með hreyfingu í rými, sem við getum sagt að tónlist sé í rauninni. Hún er bara hreyfing, ósýnileg hreyfing, í lofti,“ segir Berglind.                                                                                        

Æfingar fara fram í Listasafninu, þar sem þríeykið skapar verkið í sýningarrýminu. „Við Margrét vinnum báðar frekar rýmisbundið þannig að það er mikilvægt fyrir okkur að vinna á staðnum,“ segir Elín. „Framundan eru þrír daga þar sem við verðum hér að prófa og prófa og prófa.“

„Þetta er mjög gott, við erum síðustu tónleikarnir fyrir kosningasjónvarpið, þannig að þetta verður svolítið svona eins og að fara í messu fyrir fæðingu Jesú Krists, við bara vitum ekki hver Jesús Kristur er,“ segir Margrét.

Hina hópana skipa:
• Hafdís Bjarnadóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir og Berglind Tómasdóttir
• Elfa Rún Kristinsdóttir, Matthias Halvorsen og Bára Gísladóttir
• Davíð Þór Jónsson, Bjarni Frímann Bjarnason og Siggi Rallý

Nánari upplýsingar um Deilt með tveimur má finna hér.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Rás 1 deilir með tveimur á kosningadag