Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Davíð Oddsson býður sig fram til forseta

08.05.2016 - 09:57
Mynd: RÚV / RÚV
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Hann lýsti þessu yfir í þætti Páls Magnússonar, Sprengisandi á Bylgjunni.

Davíð sagði í þættinum að hann ætlaði að sjá hvernig framboðið myndi mælast fyrir. „Það veit enginn, það er stutt síðan ég fór að hugsa þetta, örfáir dagar í rauninni. Þannig að ég renn blint í sjóinn.“

Spurður um hvers vegna hann tók þessa ákvörðun sagði Davíð: „Ætli skýringin sé ekki sú að ég telji að það mætti hafa einum fleiri rétta á forsetamatseðlinum og ég gæti kannski passað þar inn í þannig að menn hefðu úr meir að velja en upp á síðkastið. Þá býst ég við því að bæði reynsla mín og þekking, sem er nokkur, gæti fallið vel að þessu starfi. Það er ástæðan fyrir því að ég legg af stað í leiðangurinn.“

Davíð segist ekki geta svarað því með vissu hvort hann hefði líka gefið kost á sér ef Ólafur Ragnar hefði ekki hætt við að hætta. Það sé það stutt síðan hann hafi látið þetta ná einhverjum tökum á mér. Hann segir það þó rangt sem haldið hafi verið fram að hann hafi velt þessu lengi fyrir sér með hópi manna. „Auðvitað skiptir máli hvort sitjandi forseti bíður sig fram eða ekki.“

Davíð rifjaði upp að hann og Ólafur hafi verið pólitískir andstæðingar, en persónulega hafi alltaf farið vel á með þeim. „Ég kaus auðvitað ekki Ólaf 1996 en ég get ekki neitað því að mér þóttu hann og Guðrún Katrín glæsileg forsetahjón og mér fannst þau leysa sitt verkefni myndarlega og fallega á allan hátt. Ég hreifst af því hvernig þau tóku á móti gestum og voru andlit Íslands út á við.“ Þá hafi hann einnig fylgst með þegar Guðrún stríddi við veikindi sín, sem að lokum drógu hana til dauða.

Davíð nefnir að einnig hafi komið skeið þar sem hann hafi ekki verið eins ánægður með Ólaf, sem hann kallar útrásarskeið. „Síðan gerði Ólafur mjög merka hluti varðandi Icesave. Það þurfti kjark til og hann stóð mjög myndarlega að því öllu saman. Þannig að þegar hann bauð sig fram 2012, og það orkaði mjög tvímælis því hann var búinn að vera svo lengi, þá tók ég því ekki illa persónulega. Mér fannst hann eiga það skilið.“

Í því samhengi vísar Davíð í verk vinstri stjórnarinnar sem sat á þessum tíma, sem hann segir hafa verið með mjög skrítna hluti á prjónunum. „Hún var að leggja til atlögu við íslensku stjórnarskrána, hún var að rjúka með þjóðina inn í Evrópusambandið án þess að það hefði farið fram raunveruleg athugun á því og allt var þetta villtur tími. Ég taldi að Ólafur gæti réttlætt að hætta við ákvörðun þá.“

Davíð bætti þó við að hann hefði ekki kosið Ólaf þá - hann hafi skilað auðu. Ef hann hefði ekki náð kjöri, hefði hann þó kosið hann. Ákvörðun hans að bjóða sig fram nú telur Davíð hins vegar ekki eins upplagða. Tíminn væri of langur og þær aðstæður sem hann hafi gefið upp ekki fullnægjandi. 

Davíð segir einnig að með ákvörðun sinni reyni Ólafur á þanþol þjóðarinnar. Hún vilji ekki að Ólafur tapi í kosningum og ekki sé rétt að stilla henni upp aftur með þessum hætti.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV