Dauðsföllum vegna hjartasjúkdóma fjölgi á ný

09.10.2017 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Allt bendir til þess að dauðsföllum vegna kransæðasjúkdóma fjölgi á komandi árum. Hjartalæknir segir brýnt að stjórnvöld sporni gegn aukinni offitu með neyslustýringu. 

Kransæðasjúkdómar voru lengi algengasta dánarorsök Íslendinga. Frá 1980 hefur þó dregið úr helstu áhrifaþáttum, einkum reykingum, og nú deyja 72% færri úr kransæðasjúkdómum. Samkvæmt nýjum gögnum Hjartaverndar, sem fjallað er um í Læknablaðinu, er þessi jákvæða þróun á undanhaldi. Offita og sykursýki hefur aukist verulega á undanförnum árum og er því spáð að dánartíðni vegna hjartasjúkdóma fari aftur vaxandi. 

Íslendingar þyngri en aðrir Norðurlandabúar

„Við höfum sögulega séð verið með miklu lægri tíðni af sykursýki heldur en nágrannaþjóðirnar okkar, allt fram undir þetta, en nú erum við búin að ná þeim og erum að sigla fram úr þeim. Ef við horfum á íslensku þjóðina að meðaltali þá er hún lang þyngst af Norðurlandaþjóðunum,“ segir Karl Andersen, yfirlæknir á Hjartagátt Landspítalans.

58% Íslendinga eru í ofþyngd og er íslenska þjóðin sú eina á Norðurlöndum þar sem algengara er að vera í ofþyngd en í kjörþyngd. Karl segir að þetta komi á vissan hátt á óvart, enda hreyfi fólk sig meira en áður. Þetta megi rekja til mataræðis, Íslendingar borði mikið af skyndibita og sætindum.

Stjórnvöld beiti sér fyrir heilbrigðari neyslu

Hann segir að stjórnvöld þurfi að sporna við þessari þróun. „Í sambandi við til dæmis verðlagningu matvæla, hvað er ódýrt og hvað er skattlagt. Við Íslendingar borðum mun minni ávexti og grænmeti en aðrar Norðurlandaþjóðir og þetta er hlutur sem hægt er að hafa áhrif á með því að gera ávexti og grænmeti ódýrt og aðgengilegt,“ segir Karl.  

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi