Dauði hipstersins

Mynd: Pexels.com / Pexels.com

Dauði hipstersins

17.07.2018 - 12:48
Þorvaldur Sigurbjörn Helgason varð fyrir vægu áfalli þegar hann ferðaðist til mekka hipsteranna, Berlínar, um daginn. Hann veltir fyrir sér í öðrum pistlinum úr Hve glötuð er vor æska hvort menningarfyrirbærið sem slíkt sé liðið undir lok eða hvort hann sjálfur sé hættur að vera hluti af menginu.

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:

Rétt fyrir síðustu jól fór ég í vikulangt frí til Berlínar. Ég til mig þekkja borgina ágætlega, dvaldi þar um nokkurra mánaða skeið vorið 2016 og reyndi að læra þýsku á kaffihúsum og börum Kreuzberg og Neukölln. Berlín er ein þessara borga sem eru mjög mikið inn í dag og hefur reyndar verið það áratugum saman. Það eru einhvernveginn allir annaðhvort á leiðinni til Berlínar eða að koma þaðan og þá sérstaklega þeir sem tilheyra þeim illskilgreinanlega menningarkima sem kallaðir hafa verið hipsterar. Ég tilheyri sjálfur þessum hópi og viðurkenni það fúslega enda er ég bæði með gleraugu og skegg og eyði löngum stundum á kaffihúsum með Macbook tölvuna mína að þykjast vera að skrifa ljóð þegar ég er í rauninni bara að skoða Facebook. En hipsterinn er orðið nokkuð þvælt hugtak og hefur raunar verið á útleið í menningarumræðunni síðan það náði hápunkti í kringum 2015. Ég læt þó slíkt ekki á mig fá enda er það í eðli hipstersins að eltast ekki við það sem er í tísku hverju sinni.

Ég hafði talið mig nokkuð öruggan í Berlín, þeirri borg sem iðulega er nefnd sem mekka hipsteramenningar, en annað kom í ljós. Uppgötvunin átti sér stað í Urban Outfitters í Mitte. Ég gekk inn í verslunina, fullviss um að þarna ætti ég öruggt afdrep til að versla ódýr föt saumuð af undirlaunuðum starfsmönnum einhvers þriðja heims ríkis. Urban Outfitters hefur lengi verið einskonar hipsteraútgáfa af H&M þar sem hægt er að versla öll helstu einkennisklæði þessa menningarkima; upplitaðar köflóttar skyrtur, uppbrettar prjónahúfur og notaða Barbour jakka. En það sem blasti við mér þarna í Urban Outfitters í desember 2017 var eitthvað allt annað. Púffaðar og glansandi dúnúlpur, joggingbuxur á uppsprengdu verði og síðir stuttermabolir með lógói einhvers íþróttavörumerkis.

Ég ráfaði um búðina í nokkrar mínútur í einskonar móki. Ég hafði komið í þessa sömu búð og fundið fjölmargt við mitt hæfi fyrir rúmu ári síðan. Eitthvað mikið hafði breyst og það var erfitt að segja hvort að breytingin hafi átt sér stað innra með mér eða í tíðarandanum. Ég fór heim til vinar míns og skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook: „Fór í Urban Outfitters áðan og sá ekkert nema dúnúlpur og sweat pants. Hipsterinn er officially dauður.“ Athugasemdirnar sem ég fékk voru misjafnar, ein vinkona mín taldi breytt vöruúrval verslunarinnar einungis endurspegla kalt loftslag Berlínarvetursins á meðan viðskiptajöfurinn faðir minn hvatti mig til að versla í búðinni til að rétta af samdráttinn í fyrirtækinu. Ein þeirra hitti þó naglann á höfuðið á óþægilega hreinskilinn hátt: „Neibb, þú er bara officially orðinn gamall. Skilur ekki krakkana. Velkominn í hópinn.“

Höfundur þessarar athugasemdar er sjálfur rithöfundur og hefur furðað sig á því að vera enn kallaður ungskáld þrátt fyrir að vera kominn á þrítugasta og fimmta aldursár. Ég hló að athugasemdinni en á sama tíma vissi ég að hún væri hárrétt. Ég er 26 ára gamall, byrjaður að fá mánaðarleg símtöl frá tryggingarsölumönnum og farinn að búa til afsakanir fyrir því að búa enn hjá mömmu þegar fólk spyr mig um hagi mína. Ef til vill er hipsterinn dauður eða kannski er ég bara ekki lengur í markhópi ungmennatísku kapítalismans. En hvort sem það er þá get ég prísað mig sælan að vera ennþá ungskáld. Allavega næstu átta árin.

Pistillinn var fyrst fluttur í þættinu Hve glötuð er vor æska?, bókmenntaþætti RÚV núll, en hægt er að hlusta á hann í heild sinni í Spilaranum. Í þessum fyrsta þætti seríunnar var fjallað um bóklestur ungs fólks og reynt að svara því hvort hann þrífist í grunn- og framhaldsskólum landsins.

Tengdar fréttir

Pistlar

Hrein þekking á 15 mínútum?