Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dauðarefsing afnumin í Burkina Faso

02.06.2018 - 01:57
epa03401792 President of Burkina, Faso Blaise Compaore delivers a statement during his visit at the Elysee Palace in Paris, France, 18 September 2012.  EPA/IAN LANGSDON
Blaise Compaore, fyrrverandi forseti Búrkína Fasó. Hann hrökklaðist frá völdum, nauðugur viljugur, haustið 2014. Bróðir hans, Francois, er nú eftirlýstur fyrir morð.  Mynd: EPA
Löggjafarþing Afríkuríkisins Búrkína Fasó samþykkti í vikunni afnám dauðarefsingar og fleiri gagngerar breytingar á refsilöggjöf landsins. Dómsmálaráðherra Búrkína Fasó, Rene Bagoro, segir breytingarnar gera refsilöggjöfina nútímalegri og trúverðugri, stuðla að jafnræði borgaranna og auka skilvirkni réttarkerfisins.

Í frétt BBC segir að fjölmiðlar í Búrkína Fasó geri því skóna að megintilgangur breytinganna sé að greiða fyrir framsali á eftirlýstum manni sem er í haldi franskra yfirvalda, en Frakkar framselja fólk ekki til landa, þar sem dauðarefsing vofir yfir því.

Francois Compaore, yngri bróðir fyrrverandi forseta Búrkína Fasó, er grunaður um aðild að morði á rannsóknarblaðamanninum Norbert Zongo. Hann flýði til Fílabeinsstrandarinnar skömmu eftir morðið á Zongo og hélt þaðan áfram til Frakklands. Þar var hann handtekinn í fyrra á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV