Danshreyfingar undir smásjánni

Danshreyfingar undir smásjánni

18.11.2016 - 09:58

Höfundar

„Ég var orðin rugluð og ekki viss um hvernig minn eigin dansstíll væri, hvernig dansari ég væri, og þá fannst mér gott að skoða hvað ég hef gert og hvernig danshöfundar hafa haft áhrif á mann,“ segir Katrín Gunnarsdóttir danshöfundur. Hún frumsýnir sýninguna Shades of History í Tjarnarbíó í kvöld en þar hefur hún eimað höfundareinkenni 26 danshöfunda og blandað þeim saman. 

Shades of History fjallar um hvernig ein hreyfing getur þróast yfir í aðra og er í senn söguleg athugun og persónuleg. Þetta er eins konar framhald af öðru verki Katrínar, Saving History frá 2014.

„Þá skoðaði ég þennan „orðaforða“ frá þeim danshöfundum, sem ég hafði fengið lánað frá í gegnum tíðina, alveg frá því ég var unglingur að keppa í „freestyle“. Þar tók ég fimmtán ár af danssögu, mína persónulegu danssögu.“

Nú tekur hún þennnan efnivið lengra. „Það sem ég er að gera núna er að skoða mismunandi tegundir af hreyfingum, eins og handahreyfingar eða höfuðhreyfingar. Um leið og maður smættar þetta niður og skoðar einkennin þá er maður oft ekki viss um hvaða stíll tekur við af hverjum.“

Katrín segir að með því að draga út atriði úr eigin sögu hafi hún fengið nýjan skilning á því hvernig dansari hún er.

„En þótt við séum að vinna með danssögu og orðaforða þaðan þá er það ekki aðalatriðið í upplifun fyrir áhorfandann. Þeir sem eru mjög vel að sér geta kannski séð vísanir hér og þar en það er ekki lykillinn að þessu. Ég held að þú getir samt komið og notið, séð hreyfinguna og flæðið og farið í þitt eigið ferðalag.“