Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dansað út úr röðinni

Mynd: bjartur / bjartur

Dansað út úr röðinni

16.12.2017 - 10:25

Höfundar

„Með þessu þéttriðna neti um hlutverk listarinnar og fjölskyldunnar í lífinu hefur höfundi tekist að vekja áleitnar spurningar og samtímis fléttað þær saman í lesvæna og áhugaverða sögu um mannlega, ef ekki móðursýkislega, þrá manneskjunnar eftir viðurkenningu samfélagsins á fjölskyldu sinni og um leið sjálfri sér.“ Gauti Kristmannsson rýnir í nýjustu bók Yrsu Þallar Gylfadóttur, Móðurlífið, blönduð tækni.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Móðursýki er sjúkdómur, sem dregur nafn sitt að lífmóðurinni (barnsleginu), af því að menn áður á tímum (eins og reyndar nokkrir gjöra enn) álitu að veikin hefði aðalupptök sín í barnsleginu.“ Svo mælti Jónas Jónassen í Lækningabók fyrir alþýðu á Íslandi sem út kom 1884 og finna má þessa tilvitnun í Ritmálssafni Árnastofnunar þegar leitað er að lykilorðinu. Má af þeim orðum sjá að sumir læknar voru farnir að átta sig á misvísuninni sem felst í íslensku þýðingunni á hinu forn-gríska hystéria, en það orð fann sér leið sem tökuorð inn í mörg tungumál Vesturlanda. Íslenska málhreinsunarþýðingin er hins vegar mjög nálægt upprunalegri merkingu forn-gríska orðsins sem orðabækur segja að merki „af móðurlífi“ og byggði upphaflega á þeirri trú leg konunnar væri rót að ýmsum andlegum kvillum.

Leitin að móður

Yrsa Þöll Gylfadóttir, höfundur bókarinnar Móðurlífið, blönduð tækni, er kannski að nýta sér þessa aldagömlu goðsögn á íronískan hátt í titli bókar sinnar, en um leið er þetta margræður titill á sögu konu sem kynnist lífi móður sinnar smám saman, huldu lífi fyrir henni, vegna þess að móðirin yfirgaf hana, bróður hennar og föður um árabil til að sinna ferli sínum sem þekktur listamaður. Forsendan fyrir leitinni að móðurinni og sögu hennar er einföld í sögunni; látin móðir söguhetjunnar Kamillu var þekkt en titlölulega nýgleymd listakona frá síðari hluta tuttugustu aldar og nú á að setja upp stóra yfirlitssýningu henni til heiðurs og Kamilla er beðin um aðstoð við að finna efni í sýninguna, en móðir hennar hafði einmitt búið lengi erlendis meðan hún lifði og starfaði.

Ein gömul skilgreining á móðursýki, ekki kynbundin, er athyglissýki, þrá eftir viðurkenningu og er ekki laust við að manni komi hún í hug við lestur þessarar skáldsögu um Kamillu, sem einmitt grípur til örþrifaráða til að öðlast viðurkenningu móður sinnar í augum heimsins. Önnur hugrenningatengsl, sem fram spretta, eru vitaskuld fleyg orð Halldórs Laxness úr Brekkukotsannál, en ekki er hægt að segja að þessi saga styðji þau spakmæli, ef svo skyldi kalla, þvert á móti eiginlega, segja má að fjarvist móðurinnar hafi valdið mörgum sársauka á tíma þegar ekki þótti sjálfsagt að konur fórnuðu fjölskyldulífi fyrir frama í listum eða á öðrum sviðum tilverunnar, ef því er að skipta.

Áreynslulaus frásagnarstíll

Vitanlega kemur hin feminíska spurning fram; af hverju annað gilti um konur en karla í þessum efnum, en það er samt sem áður ekki þungamiðja sögunnar, aðeins einn þráður af mörgum sem saman eru vafðir til að skoða samband foreldra og barna, fjöl-skyldur foreldranna við börn sín og sjálfa sig. Mæðurnar eru þó algjörlega í forgrunni og heimur kvenna í samtímanum og frekar nýliðnum tíma einnig. Við sem erum á miðjum aldri getum vel tengt við þetta, við þekkjum þennan tíma og þær breytingar sem átt hafa sér stað, jafnvel fyrir „metoo“-byltinguna svonefndu, en vísast hafa orðið önnur straumhvörf með henni. Raunar er það svo að það er ein sena í þessari bók sem maður veltir fyrir sér hvort hefði yfirleitt verið skrifuð svona eftir þau.

Bókin, sem er skrifuð í þriðju persónu, en algjörlega út frá sjónarhorni söguhetjunnar Kamillu, fer rólega af stað, frásagnarstíllinn áreynslulaus raunsæisprósi, og það tekur dálítinn tíma að nálgast bæði persónuna og söguna, sem í fyrstu sýnast vera mjög dæmigerð á margan hátt. En örlítil þolinmæði sakar ekki í þessu tilfelli því smám saman skynjar lesandinn, þessi alla vega, undirliggjandi vendingar og drama sem í vændum eru. Eitt eða tvö atriði eru kannski okkuð fyrirsjáanleg, að mínum dómi, en það tókst raunar að snúa upp á þær væntingar, jafnvel þótt þessi atriði hafi á endanum komið fram. Það verður þó ekki rakið hér frekar.

Óvæntir snúningar

Allt það slétta og fellda, sem framan af virðist svo óskaplega venjulegt, byrgir inni í sér harm hinnar borgaralegu velgengni sem ævinlega leitast við halda andlitinu andspænis óþægilegum veruleika tilverunnar, ekki síst ef menn dansa út úr röðinni, eins og sagt er stundum á þýsku. Á vissan hátt má segja að Kamilla virðist vera að leita að sjálfri sér í leit sinni að móður sinni, þótt sú leit virðist ekki beinlínis drifin af þörfum hennar sjálfrar. Enda hefði sú klisjukennda hugmynd ekki gengið upp, því hún finnur ekki sjálfa sig heldur móður sína eins og hún var og það verður henni að falli á býsna mergjaðan hátt í lok sögunnar, en þar tekur fléttan óvænta snúninga sem skapa umtalsverða spennu í frásögninni.

Annar þráður og virkilega athyglisverður er ímynd og upphafning listamanna og leyfi þeirra, gott ef ekki skylda, til að dansa út úr röðinni, nánast eins og hin borgaralega þvingan þurfi á því að halda til að sjá sig á réttum stað, með sína röð og reglu. Svona eins og sjálfsblekking einstaklingshyggjunnar þurfi staðfestingu á sjálfri sér fyrir tilstilli nokkurra listamanna, sem annast það fyrir okkur hin að vera ósviknir einstaklingar meðan við marsérum í takt, hvert vitum við ekki, en takturinn er róandi. Um leið er rödd listakonunnar, móður Kamillu, full efasemda á þessu hlutverki listamanna, listarinnar yfirleitt, hún, viðfang þeirrar borgaralegu upphafningar sem yfirlitssýningin endurspeglar, afbyggir með orðum sínum nákvæmlega þá upphafningu. Og dóttir hennar afbyggir hana af sinni borgaralegu þrá eftir samlögun við táknskipanina sem stýrir henni; starfsval hennar, söngkona í jarðarförum, aðallega, undirstrikar þetta með íronískum hætti.

Eilífðarspurningar

Með þessu þéttriðna neti um hlutverk listarinnar og fjölskyldunnar í lífinu hefur höfundi tekist að vekja áleitnar spurningar og samtímis fléttað þær saman í lesvæna og áhugaverða sögu um mannlega, ef ekki móðursýkislega, þrá manneskjunnar eftir viðurkenningu samfélagsins á fjölskyldu sinni og um leið sjálfri sér. Þessar spurningar eru vitaskuld eilífðarspurningar en það er ánægjulegt að sjá tekist á við þær á svo markvissan og að mörgu leyti gáfulegan hátt, án þess að textinn verði nokkru sinni hátimbraður eða yfirlætislegur. Þar hjálpar raunsæislegur prósinn raunar, nákvæmlega þessi viðfangsefni siðferðis, listarinnar og hinnar brotakenndu fjölskyldu samtímans, gætu flækst og tæst í fíngerðari og stílaðri prósa, en þó er aldrei að vita hvert höfundi sem tekst svo vel upp með þetta efni fer með lesendur næst.