Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dansað miklu meira

Mynd með færslu
 Mynd: Saga Sig - Sykur

Dansað miklu meira

29.11.2019 - 09:42

Höfundar

Kvartettinn Sykur snýr aftur eftir átta ár með plötuna JÁTAKK! sem er plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni.

Átta ár á milli platna er heilmikið í popplegum skilningi en Sykurfólkið tekur nokkurn veginn upp þráðinn þar sem frá var horfið, og þó ekki. Til stóð að fylgja síðustu plötu, Mesópótamíu, eftir fljótt og vel en það gekk ekki eftir sökum anna og þess að sveitin var óánægð með það efni sem þó var unnið. Því var byrjað frá grunni á þessari plötu.

Fjölbreytt

Þetta er nokkuð fjölbreytileg smíð. Alls kyns tölvupopp, bæði stuðvekjandi og ballöðukennt. Sumt er eftir bókinni; öruggt, stálkalt og grúvandi en stundum er brugðið á leik og flippað dálítið. Platan er því síst straumlínulöguð, lagasmíðalega séð. Það er jafnvel frelsandi værukærð yfir, þannig séð, og maður skynjar að heimsfrægð er ekki endilega meginmarkmiðið. Og líklega alls ekki. Sum lögin eru reyndar full hefðbundin fyrir minn smekk, „Sefur svo fast“ og „Lost song“ eru snyrtilega frágengin og allt það en skilja lítið eftir sig, full bragð- og sykurlaus. Grallaralögin ganga betur upp. „Fokk opp“ er vel súrt og súrrealískt, og söngur Agnesar Bjartar skemmtilegur. Söngurinn í „Strange Loop“ er allt öðruvísi, minnir helst á Nönnu Bryndísi í OMAM og „Svefneyjar“ er í pumpandi GusGus-takti. „Kókídós“ er drungaballaða en svo er hent í rafmagnsgítara í „Motherlode“, undarleg smíð og eiginlega hálfgerð snilld. Plötunni er slaufað með ekta Sykur-stuði, þar sem nauðsyn þess að dansa meira og meira er undirstrikuð og maður sér sveitta skrokka fyrir sér á næturklúbbi í Reykjavík, hvar Sykur hefur einatt fundið sig vel.

Margt

Það er margt með þessari plötu en líka ekki. Fjölbreytileikinn heldur manni við efnið; fínar hugmyndir hér og hvar og svuntuþeysararnir Stefán Finnbogason, Halldór Eldjárn og Kristján Eldjárn eigi einhamir. Þessi fjölbreytileiki gefur þó um leið til kynna visst stefnu- og fókusleysi sem kraumar einhvern veginn undir. Hefðbundnu smíðarnar eru einfaldlega of hefðbundnar og litlausar en að sama skapi gefa þau lög sem ég hef verið að mæra til kynna að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Tengdar fréttir

Popptónlist

SYKUR - JÁTAKK

Tónlist

Sykur og svanasöngur Grísalappalísu stóðu upp úr

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Sykur frumflytur nýtt lag