Vegur Vakar hefur farið vaxandi með hverju misseri, hægt og örugglega fetar hún hann af meira öryggi og áræði og vegurinn breikkar sífellt; fleiri tónleikar, fleiri aðdáendur, stærri markaður. Ég lauk dómi mínum um síðustu plötu, hinni firnavel heppnuðu Figure, að nú væri lag að taka þetta lengra. Það hefur sveitin gert, en kannski ekki alveg á þann máta sem ég sá fyrir. Og þó? Skoðum þetta aðeins. Á Figure var Vök eiginlega búin að fara eins langt og hægt var með þennan melankólíska, ofursvala norræna tón sem var uppleggið þeirra. Eftir á að hyggja, var sú plata eiginlega fullkomin að því leytinu til. Andinn var fjarrænn (og svalur), allt svo fumlaust og feikisvalt. Hljóðheimurinn stálkaldur og stíliseraður, dumbungslegur og kæruleysislega kúl og á þeim punkti var sveitin klár í strandhögg á erlendri grundu, og hefur því verið fylgt rækilega eftir.