Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dansað inn í ljósið

Mynd:  / 

Dansað inn í ljósið

08.03.2019 - 14:26

Höfundar

In the Dark er önnur breiðskífa Vakar og er hún til muna poppaðri en fyrirrennarinn, Figure. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Vegur Vakar hefur farið vaxandi með hverju misseri, hægt og örugglega fetar hún hann af meira öryggi og áræði og vegurinn breikkar sífellt; fleiri tónleikar, fleiri aðdáendur, stærri markaður. Ég lauk dómi mínum um síðustu plötu, hinni firnavel heppnuðu Figure, að nú væri lag að taka þetta lengra. Það hefur sveitin gert, en kannski ekki alveg á þann máta sem ég sá fyrir. Og þó? Skoðum þetta aðeins. Á Figure var Vök eiginlega búin að fara eins langt og hægt var með þennan melankólíska, ofursvala norræna tón sem var uppleggið þeirra. Eftir á að hyggja, var sú plata eiginlega fullkomin að því leytinu til. Andinn var fjarrænn (og svalur), allt svo fumlaust og feikisvalt. Hljóðheimurinn stálkaldur og stíliseraður, dumbungslegur og kæruleysislega kúl og á þeim punkti var sveitin klár í strandhögg á erlendri grundu, og hefur því verið fylgt rækilega eftir.

Meira og minna

Á In the Dark hefur þessari nálgun svona meira og minna verið hent út um gluggann. Þetta er Vök í grunninn en í stað rökkurs er ljósbrot. Platan ætti eiginlega að heita In the Light. Ég nefndi The xx, Portishead og Beach House meðal annars sem snertipunkta hvað fyrstu plötuna varðar en slíkar skuggaverur eru víðsfjarri hér. In the Dark er poppplata; lögin eru þéttriðnir melódíuópusar og þau skoppa áfram á gáskafullan hátt, dansa í ljósinu frekar en að skríða um í myrkrinu. Hin frábæra Margrét Rán er til baka í söngnum að venju, eitursvöl í flutningi sínum, og söngröddin hennar er líklega helsta tengingin inn í „gömlu“ Vök. En eins og platan byrjar, fyrstu fjögur lögin eða svo, er þetta miskunnarlaust útvarps- og dansgólfspopp. Vers og viðlög dilla sér framan í þig og grípa utan um þig. „Ambient“-taktarnir og dulúðin sem einkenndi síðustu plötu er að mestu horfin. Figure var nemandinn sem lætur lítið fyrir sér fara aftast, In the Dark er gáfnaljósið sem situr fremst og réttir upp höndina. In the Dark er vel samsett plata og Vök er ansi örugg í þessari stefnu sem þau hafa nú tekið. Fyrst um sinn fannst mér eins og það væri farið heldur nærri þessu skammlausa poppi, og sveitinni í raun fórnað á altari þess sem sá bransi heimtar. Með aukinni hlustun er ég þó farinn að róast niður. Og hvert áttu þau að fara með tónlistina? Eins og ég hef lagt rök að, fyrra dæmið var í raun tæmt. Og þetta nýja sniðmát fer sveitinni vel, það er gjörsamlega verið að „púlla“ þetta. Það er ekkert víst að þetta klikki.