Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Daniel Ortega neitar að segja af sér

24.07.2018 - 19:29
epa06873132 Nicaraguan President Daniel Ortega (R) and Vice President Rosario Murillo (L) wave during a rally in Managua, Nicaragua, 07 July 2018. Ortega refused the proposal by Secretary-General of Organization of American States Luis Almagro for early
Daniel Ortega og eiginkona hans Rosario Murillo varaforseti. Mynd: EPA-EFE - EFE
Daniel Ortega, forseti Níkaragva áformar ekki að segja af sér embætti og flýta kosningum. Mótmæli gegn honum og stjórn hans hafa staðið í rúmlega þrjá mánuði og kostað fjölda fólks lífið. Engar vísbendingar er um að þeim linni á næstunni.

Ortega segir í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina Fox að hann ætli að sitja sem fastast til ársins 2021, þegar forsetakosningar eru næst á dagskrá í Níkaragva. Hann sjái enga ástæðu til að leggja sitt af mörkum til að koma á ró með því að hverfa úr embætti eins og stjórnarandstæðingar hafa farið fram á. Hann segir að það myndi einungis skapa óstöðugleika og auka á óöryggi.

Mótmæli sem beinast einkum að Daniel Ortega og eiginkonu hans, Rosario Murillo varaforseta, hafa staðið linnulítið frá 21. apríl síðastliðnum vegna fyrirhugaðra breytinga á almannatryggingakerfi landsins. Þær voru síðar afturkallaðar. Að sögn mannréttindasamtaka hafa aðgerðirnar kostað á fjórða hundrað manns lífið. Forsetinn segir að þar sé hvorki stjórnvöldum né lögreglu um að kenna heldur vopnuðum sveitum sem eru á öndverðum meiði við stjórnarandstöðuna. Þá neitar hann að hafa bannað heilbrigðisyfirvöldum að hlúa að fólki sem hefur særst í mótmælunum.

Ortega hefur áður haldið því fram að kaþólska kirkjan og Bandaríkin standi að baki mótmælunum gegn sér og stjórn sinni. Mörg þúsund manns mótmæltu forsetanum um síðustu helgi. Þrátt fyrir það segir hann í viðtalinu að allt sé með friði og spekt í Níkaragva.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV