Dánartíðni eykst ekki í kreppum

05.10.2018 - 18:39
Dánartíðni eykst ekki í kreppum, segir Ralph Catalano lýðheilsuprófessor við Berkeley-háskóla í Kaliforníu og aðalfyrirlesari ráðstefnunnar „Hrunið, þið munið“. Hann segir að vel megi álykta að andúð á flóttamönnum sé afleiðing kreppunnar. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

Háskóli Íslands heldur ráðstefnuna. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem átti þátt í undirbúningnum þegar hann var prófessor, heimfærði í ávarpi sínu fjögur stig sorgarviðbragða til að útskýra svörun þjóðarinnar við hruninu þ.e. áfall, reiði, þunglyndi og loks sátt, þegar einhvers konar vitneskja liggi fyrir um hví fór sem fór.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

„Þegar sagan af sögu hrunsins er skoðuð allt til okkar daga er auðvitað vandséð, það verður að viðurkennast, um orsakir hrunsins og hvernig glíma skuli við afleiðingar þess. Og erum við þá ekki bara of nærri hruninu?“ sagði forsetinn við setningu ráðstefnunnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

Heilsa versnar hjá sumum en batnar hjá öðrum

Aðalfyrirlesarinn Ralph Catalano hefur rannsakað tengsl efnahagslífs og lýðheilsu og hann hefur rannsakað dánartíðni í kreppunni 2008.

„Áhrifin á samanlagða heilsu, þ.e.a.s. langlífi fólks á einu svæði, voru ekki sérlega mikil á flestum stöðum sem til eru gögn yfir. Það þýðir ekki að fólk hafi ekki átt erfitt,“ segir Catalano.

En aðrir verði hins vegar betri til heilsunnar í kreppu. Þeir hafi minni peninga til að eyða í hættulega hluti:

„Óhöppum fækkar oft, bílslysum fækkar og tíðni sjúkdóma af völdum áfengis og fíkniefna lækkar á krepputímum. Þetta kallast tekjuáhrifin.“

Andúð sem pólitíkusar notfæra sér

Dánartíðni hafi verið mun hærri 2015 í Vestur-Evrópu vegna inflúensu og í Bandaríkjunum vegna ópíóða-ofneyslu heldur en í kreppunni. Birtingarmyndir afleiðinga kreppu og atvinnuleysis, sem oft fylgir, eru ekki allar augljósar:

„Efti stóru efnahagskreppuna, eins og mörg dæmi eru um áður, braust víða út það sem kalla má vonbrigða-ofsi, og það sást til dæmis í viðbrögðum gegn flóttamönnum. Aðrir nýttu sér það í pólitískum tilgangi, til dæmis Donald Trump.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi