Dalvíkurbyggð gert að afhenda útboðsgögn

11.10.2016 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur skyldað Dalvíkurbyggð til að afhenda Íslenska gámafélaginu ehf. gögn er varða útboð á sorphirðu í sveitarfélaginu og þjónustu við endurvinnslustöðvar árin 2015-2020.

Í kjölfar útboðs í fyrrasumar samdi Dalvíkurbyggð við Gámaþjónustu Norðurlands ehf. um verkið. Í kjölfarið óskaði Íslenska gámafélagið þess að fá afhent öll gögn er varða útboðið.

Því synjaði Dalvíkurbyggð og bar við samkeppnishagsmunum fyrirtækjanna sem tóku þátt í útboðinu. Íslenska gámafélagið kærði synjunina til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem nú hefur úrskurðað að Dalvíkurbyggð beri að afhenda fyrirtækinu umrædd gögn. M.a. útboðs- og verklýsingu, ásamt tilboðsskrá og tilboðsgögnum Gámaþjónustu Norðurlands.

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að verða við úrskurðinum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi