Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dalvíkingar hneykslaðir á Vegagerðinni

16.01.2018 - 07:14
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar furðar sig á því að aukin vetrarþjónusta Vegagerðarinnar í Svarfaðardal muni ekki nýtast öllum íbúum í Svarfaðar- og Skíðadal. Þetta kemur fram í bókun ráðsins af fundi þess í gær. Allir fimm nefndarmenn kvitta undir bókunina, þar sem því er fyrst fagnað að Vegagerðin sjái nauðsyn þess að auka við snjómoksturinn í Svarfaðardal, þótt það sæti furðu að hann eigi ekki að nýtast öllum á svæðinu.

Tilkynnt var um það í upphafi árs að fjármagn til vetrarþjónustu yrði aukið um 75 milljónir á þessu ári – það ætti að nýtast víða um land, meðal annars í Svarfaðardal.

„Það er með hreinum ólíkindum að Vegagerðin skuli leyfa sér að mismuna íbúum dalanna um umferðaröryggi eftir því hvar þeir búa. Það fer skólabíll í báða dalina alla virka daga og einnig sækja íbúar þar vinnu til Dalvíkur,“ segir í bókun umhverfisráðsráðsins.

Þá séu ferðaþjónustufyrirtæki í báðum dölunum sem þurfi á góðri vetrarþjónustu að halda. „Einnig má geta þess að á þeirri leið sem Vegagerðin leggur til að aukin þjónusta verði, eru einungis tvö af tólf mjólkurbúum í dölunum og sækir mjólkurbíllinn mjólk á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum.“

Ráði krefst þess að í fyrirhuguðu snjómokstursútboði verði gert ráð fyrir sjö daga þjónustu í bæði Svarfaðardal og Skíðadal og að búið verði að moka áður en skólabíllinn komi klukkan 7.30 að morgni. Þá er skorað á þingmenn kjördæmisins, samgönguráðherra og vegamálastjóra að beita sér fyrir þessum tillögum ráðsins.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV