Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dagurinn farið í að undirbúa það versta sem gæti gerst

Mynd með færslu
 Mynd: Grindavík
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að jarðvísindamenn hafi greint stöðuna á fundi sem stóð yfir í allan dag. Þar hafi einnig verið fulltrúar almannavarna, ríkislögreglustjóra og fleiri. „Dagurinn er búinn að fara í að undirbúa það versta sem kann að gerast,“ segir hann. Líklegast sé að þetta fjari út á næstunni en menn vilji vera við öllu búnir.

Fannar segir að á morgun verði haldið áfram að undirbúa og halda fund með íbúum. Þangað komi sömu menn og voru á fundinum í dag til að upplýsa, svara spurningum og greina stöðuna. „Á sama tíma erum við að undirbúa aðgerðir sem yrðu tilbúnar ef á þyrfti að halda síðar meir.“

Hann nefnir þar rýmingaráætlun sem dæmi. „Ef allt fer á versta veg þá þyrfti að rýma svæðið; Grindavík, Bláa lónið og ferðamenn þar, Svartsengi, HS Orku. Það þarf að vera tilbúin áætlun ef á þarf að halda. Þetta sem er að gerast gæti verið undanfari stærri jarðskjálfta. Líklegast er að þetta fjari út á næstunni en menn vilja vera við öllu búnir.“

Fannar segir að búið sé að bæta í vaktir á Veðurstofunni og bæta við jarðskjálftamælum.  „Við ætlum að hittast í fyrramálið með björgunaraðilum, bæjarfulltrúum og fleirum til að ráða ráðum, fylgjast með nýjustu upplýsingum og vera í góðu sambandi við þá sem eru að vakta svæðið og geta í það sem kann að vera í vændum.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV