Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dagur: Engar kröfur um nýjan borgarstjóra

Mynd: RÚV / RÚV
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segist bjartsýnn á að viðræður um myndun nýs meirihluta í Reykjavík, sem hefjast í dag, skili árangri. Hann segir að engar kröfur hafi komið fram um það, að hann víki úr embætti borgarstjóra.

Óformlegar viðræður oddvita Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um málefnagrunn leiddu í gær til þeirrar sameiginlegu niðurstöðu að hefja formlegar meirihlutaviðræður. Þetta kom fram í tilkynningu sem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sendi frá sér í gær. Viðræðurnar hefjast í dag og tveir fulltrúar frá hverjum flokki taka þátt í þeim. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, segir að viðræðurnar leggist vel í hann.

„Það hefur myndast gott traust á milli þessara flokka, og þess fólks sem er í forystu, síðustu daga. Og út af fyrir sig í gegnum kosningabaráttuna. Og það skiptir auðvitað mjög miklu máli, þegar fólk kemur úr svona ólíkum áttum, og ætlar að leggjast á árarnar sameiginlega í fjögur ár,“ segir Dagur.

Ertu bjartsýnn á  að þessar viðræður skili nýjum meirihluta?

„Já. Við væru ekki að stíga þetta formlega skref ef svo væri ekki.“

Setjið þið ykkur einhvern tímaramma?

„Fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar er 19. júní samkvæmt áætlun. Og við höfum sagt að við viljum vera komin með þetta í góðum tíma fyrir það. En við erum ekki að setja okkur neina fresti í þessu að öðru leyti.“

Nú er Viðreisn frekar frjálslyndur flokkur - eru einhver mál sem gæti orðið erfiðara að semja um en önnur?

„Þessir flokkar eiga reyndar býsna margt sameiginlegt. En á öðrum sviðum eru þeir ólíkir og galdurinn felst í því að gefa hverjum og einum svigrúm til þess að vinna í sínum málum, en finna sameiginlega fleti þar sem greinir á. Og það er galdurinn í góðu samstarfi og í öllum góðum samskiptum að hlusta eftir sjónarmiðum hvers annars og finna sameiginlega fleti.“

Umræða í fjölmiðlum

Verður þú áfram borgarstjóri?

„Það er ekki búið að ræða verkaskiptinguna. En það hafa heldur ekki verið settar fram neinar kröfur um annað.“

En kemur til greina að þú verðir ekki borgarstjóri í þessu meirihlutasamstarfi, verði það að veruleika?

„Við erum ekki búin að fullræða verkaskiptinguna, eins og ég segi. Það er mjög skynsamlegt að gera það þegar málefnin eru komin. Þau eru í fyrsta sæti hjá öllum. Og svo finnum við út úr hinu, þannig að allir fái að njóta sín.“

Værir þú reiðubúinn til þess að stíga til hliðar, verði farið fram á það í þessum viðræðum?

„Ég ætla ekki að vera með neinar heitstrengingar í þessu frekar en aðrir. En það hafa ekki komið fram neinar kröfur um neitt annað heldur, þannig að þessi umræða hefur meira verið í fjölmiðlum en í okkar samskiptum.“

„Fanga raddir kjósenda“

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn líklega ótvíræður sigurvegari þessara kosninga í Reykjavík með flesta menn kjörna, er ekkert óeðlilegt að hann komi ekki að þessum fyrstu meirihlutaviðræðum?

„Sjálfstæðisflokkurinn er með átta menn og við erum með sjö menn. Stefnan sem Sjálfstæðisflokkurinn talaði hins vegar fyrir náði ekki meirihluta í borgarstjórnarkosningunum. Og það er auðvitað stefnan og málefnin sem meirihlutar eru myndaðir um.“

En voru niðurstöður þessara kosninga ekki ákall um breytingar?

„Jú, og við þurfum að fanga raddir kjósenda í þessum meirihlutaviðræðum og ætlum okkur að gera það,“ segir Dagur.