Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Dagur ætlar ekki að víkja í braggamálinu

07.01.2019 - 19:43
Mynd:  / 
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar ekki að verða við kröfu Sjálfstæðismanna um að víkja úr þriggja manna hópi um braggamálið. Hann segir að málið einkennist af pólitísku upphlaupi.

Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar skilaði í síðasta mánuði svartri skýrslu um braggamálið þar sem meðal annars kom fram að ekki hafi verið farið eftir innkaupareglum borgarinnar eða sveitarstjórnarlögum. Þá hafi borgarráð fengið villandi og jafnvel rangar upplýsingar um stöðu mála en í heild nam framúrkeyrslan tæpum 270 milljónum króna.

Skýrslan var kynnt á fundi borgarráðs fyrir jól og þar var borgarstjóra, formanni borgarráðs og Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks falið að móta tilllögur að viðbrögðum við skýrslunni. 

Hildur hefur krafist þess að Dagur segi sig frá þessari vinnu en hún telur að skýrslan feli í sér áfellisdóm yfir störfum borgarstjóra. Dagur ætlar hins vegar ekki að verða við þessari kröfu. Hann vonast þó til þess að hægt verði að vinna málið í samstarfi með minnihlutanum. 

„Ég vonast til þess að eiga gott samstarf við hana og aðra í borgarráði því að borgarráð verður sá vettvangur sem við höfum til þess að vinna þetta mál með minnihlutanum,“ segir Dagur.

Dagur telur ekki óeðlilegt að hann komi að þessari vinnu.

„Það hefur verið reynt að gera það að einhverju pólitísku upphlaupsmáli en ég held að það tengist frekar því að þetta óvenjulega skref sem Hildur tók, að taka þátt í þessari vinnu, mæltist illa fyrir í ákveðnum hluta baklands Sjálfstæðisflokksins, þeim sem vilja keyra harðlínu í öllum málum og vilja ekki neitt samstarf milli meirihluta og minnihluta en í mínum huga er það gamaldags pólitík þar sem maður nær minni árangri,“ segir Dagur.

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks blæs á þessa gagnrýni og segir óeðlilegt að borgarstjóri stýri þessari vinnu.

„Það er svo mikilvægt að við vinnum vel úr þessu máli því þetta hefur verið mikið í umræðunni. Við þurfum að vinna vel úr því og vinnan þarf að njóta trausts. Við þurfum að komast að niðurstöðu sem er gagnleg fyrir borgarbúa. Við þurfum að fyrirbyggja að þetta gerist aftur og ef að borgarbúar treysta því ekki að við séum að fara inn í vandaða og hlutlausa vegferð þá er þetta sjálfdautt frá upphafi,“ segir Hildur. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV