Dagsetning skýrslunnar afmáð fyrir mistök

09.01.2017 - 17:00
Mynd með færslu
Fjármálaráðuneytið. Mynd: RÚV
Dagsetning á forsíðu skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum var afmáð í meðferð starfsmanns starfshópsins sem vann skýrsluna. Upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins segir að um mistök hafi verið að ræða. Það komi fram skýrslunni að henni hafi verið skilað til ráðuneytisins í september 2016.

Starfshópurinn, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra skipaði í sumar, skilaði skýrslunni til fjármálaráðuneytisins 13. september, en hún var ekki birt á vef ráðuneytisins fyrr en í lok síðustu viku. Á forsíðunni stendur „sept­em­ber 2016”, en búið er að gera textann hvítan svo mánaðartalið er ólæsilegt nema það sé tekið utan um það með mús, fært yfir í Word og litað.

Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að dagsetningin hafi farið út af forsíðunni í meðferð starfsmanns starfshópsins áður en hún var sett á vef ráðuneytisins. Ekki er vitað hvers vegna, en ljóst sé að um mistök hafi verið að ræða. 

„Það er vanalegt að setja dagsetningu þess dags eða mánuðar þar sem viðkomandi rit eru birt, þannig að réttara hefði verið að það stæði janúar 2017,” segir Elva, og undirstrikar að það komi fram í skýrslunni að henni hafi verið skilað til ráðuneytisins í september. 

Uppfært klukkan 17:34. Upphaflega stóð að ekki hafi verið vitað um ástæður þess að starfsmaðurinn hvíttaði textann. Eftir að fréttin birtist kom í ljós innan fjármálaráðuneytisins að um mistök hafi verið að ræða.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi