Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Dæmi um að konur sæki ekki þjónustu á meðgöngu

Mynd:  / 
Að fæða barn á Íslandi getur ef upp koma alvarlegir fylgikvillar auðveldlega kostað ósjúkratryggða konu tvær milljónir króna. Ljósmóðir í Efra-Breiðholti segir dæmi um að ósjúkratryggðar konur sleppi mikilvægum rannsóknum á meðgöngu. Hún óttast að einhverjar gætu brugðið á það ráð að fæða heima án aðstoðar. 

Mál ungra hjóna sem þurftu að greiða hátt í milljón fyrir fæðingu barns síns hefur vakið athygli. Konan er frá Mexíkó og var ekki komin inn í sjúkratryggingakerfið þegar barnið fæddist. Maðurinn er íslenskur ríkisborgari og sjúkratryggður hér. 

Fóstur í móðurkviði nýtur ekki tryggingaréttar, í skilningi laga er það hluti af líkama konunnar þar til það kemur í heiminn og ef hún er ekki sjúkratryggð á barnið engan rétt á niðurgreiddum ómskoðunum eða aðstoð við að komast í heiminn, jafnvel þó það sé íslenskur ríkisborgari.

Rétturinn miðast við hálfs árs búsetu

Íbúar ríkja á evrópska efnahagssvæðinu eru flestir sjúkratryggðir hér á landi frá fyrsta degi hafi þeir verið sjúkratryggðir í fyrra búsetulandi, um þetta gilda milliríkjasamningar. Eigi einstaklingar ekki tryggingaréttindi í fyrra búsetulandi verða þeir að bíða í sex mánuði eftir sjúkratryggingu.

Íbúar ríkja utan EES eru í annarri stöðu, þeir komast ekki inn í sjúkratryggingakerfið fyrr en þeir hafa verið með lögheimili hér í hálft ár. Þetta á líka við um Íslendinga sem búið hafa í löndum utan EES og flytja heim, að námsmönnum undanskyldum. Rétturinn miðast sem sagt við búsetu. Víða annars staðar er þessu öðruvísi háttað, þar miðast rétturinn við atvinnuþátttöku og fólk er því sjúkratryggt fljótlega eftir að það byrjar að vinna. Halla Björk Erlendsdóttir, deildarstjóri alþjóðadeildar hjá Sjúkratryggingum Íslands, segir að íslenska kerfið sé sérstakt, hún viti ekki um annað land með sambærilegt kerfi, víðast sé horft til atvinnuþátttöku en ekki búsetu.

Segir ófæddum börnum mismunað

Mynd með færslu
 Mynd: Dagur Gunnarsson
Í Efra-Breiðholti er hlutfall innflytjenda hærra en víða annars staðar. Solveig segir þó óalgengt að fólk sé ósjúkratryggt.

Solveig Jóhannsdóttir er ljósmóðir á Heilsugæslunni í Breiðholti, hún hefur lengi reynt að vekja athygli ráðamanna á þeirri mismunun sem henni finnst hluti ófæddra barna á Íslandi búa við vegna þess kostnaðar sem mæður þeirra þurfa að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu á meðgöngu. Í bréfi sem hún skrifaði stjórnmálamönnum fyrir nokkrum árum segir að barni sem verður fyrir skaða á meðgöngu eða við fæðingu vegna ónógrar þjónustu megi í hennar huga líkja við útburði fyrri alda. „Ég hef alltaf áhyggjur þegar ég fæ konur á meðgöngu sem ég er hrædd um að geti ekki nýtt sér þjónustuna nú eða gera það, borga allt í topp og eru svo stórskuldugar eftir ferlið.“ 

Alvarlegir sjúkdómar geta farið fram hjá okkur

Solveig segir að á hverju ári leiti nokkrar ósjúkratryggðar konur á heilsugæslustöðina í Efra-Breiðholti, kannski ein til fimm. Tilfellin séu misjöfn enda konurnar komnar mislangt á leið. Þær sem verða óléttar hér sleppa betur, þær eru komnar inn í kerfið áður en kemur að sjálfri fæðingunni, sem er lang dýrust. En er eitthvað um það að konur sleppi því að koma í mæðravernd vegna kostnaðar? „Það er ekki mikið um að þær sleppi því að koma í mæðravernd, ekki svo að ég verði vör við en þær eiga það til að sleppa rannsóknum,  sérstaklega dýrari rannsóknum, sónar, snemmsónar, sykurþolsprófi og kannski fleirum en þær koma yfirleitt í skoðunina og svo kannski eina og eina rannsókn sem ég legg mikla áherslu á að þær fari í.“

En hvaða afleiðingar hefur það að sleppa þessum rannsóknum? „Þá geta farið fram hjá okkur alvarlegir gallar eða sjúkdómar hjá móður sem hafa áhrif á fóstrið eða barnið, hugsanlega til langs tíma og allavega á meðgöngunni, það getur haft í för með sér uppákomur eftir fæðingu. Ef við erum að tala um kostnað getur verið miklu meiri kostnaður við veikt barn en að tryggja þessar forvarnir." 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sónarskoðun.

Óttast að konur fæði heima án aðstoðar

Solveig óttast að það gæti komið til þess að konur velji að fæða heima án aðkomu heilbrigðisstarfsmanna. „Ég hef ekki heyrt um það og vonandi hefur það ekki gerst en það er akkúrat það sem maður óttast, að þær hvorki komi í mæðravernd né fari niður á spítala.“ 

Solveig bendir á að fordæmi séu fyrir því að ófædd börn hafi sjálfstæðan rétt til verndar, svo sem í barnaverndarlögum þar sem heimilt sé að grípa inn í ef móðir stofnar ófæddu barni sínu í hættu með líferni sínu. Hún telur að kostnaður samfélagsins við að gera undanþágu frá reglunum sé líklegur til að skila sér margfalt þó ekki væri nema ef einu alvarlegu tilfelli væri afstýrt. 

Fæðing barns undanskilin í nauðsynlegri tryggingu

Konur sem ekki eru sjúkratryggðar eiga ekki annars kost en að greiða fullt verð, ætli þær að fæða barn hér. Lög kveða á um að fólk sem hingað kemur frá löndum utan EES kaupi sér sjúkratryggingu vegna þessa sex mánaða tímabils sem það tekur að komast inn í kerfið en sú trygging nær ekki yfir allt, fæðingar og þjónusta við konur á meðgöngu er til dæmis undanskilin. Kona sem flytur hingað eftir að hafa búið í til dæmis Mexíkó eða Rússlandi og er komin fjóra mánuði á leið á eftir því sem Spegililnn kemst næst ekki annars kost en að greiða fullt verð fyrir heilbrigðisþjónustu á meðgöngunni, það gildir einu hvort hún er íslensk, rússnesk eða mexíkósk.

Getur auðveldlega farið í tvær milljónir

Kostnaðurinn getur hlaupið á milljónum. „Í versta falli, þar sem kona fæðir með fylgikvillum, jafnvel keisaraskurði, þarf að fara í útskaf eða aðra aðgerð á skurðstofu og í tíðar ómskoðanir, það getur auðveldlega farið upp í tvær milljónir," segir Ingibjörg Hreiðarsdóttir, yfirljósmóðir göngudeildar mæðraverndar og fósturgreiningar á Landspítalanum. Við þetta bætist að hver bráðakoma á Kvennadeild kostar 65 þúsund krónur. Ef allt gengur eins og í sögu gæti hún að sögn Ingibjargar sloppið með 200 til 250 þúsund. Konur sem eru sjúkratryggðar þurfa ekki að greiða neitt í líkingu við þetta. Hér má sjá verðskrá kvennadeildar. Þess ber þó að geta að hún er frá 2017, verð kunnu því að hafa breyst síðan. Uppfærsla hefur dregist af tæknilegum ástæðum. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Ingibjörg Hreiðarsdóttir

Fæðing ekki ófyrirséður atburður

Andri Ólafsson, samskiptastjóri VÍS, segir að meginreglan í heimi trygginganna sé að aðeins séu tryggðir óvæntir og skyndilegir atburðir sem verði án vilja hins vátryggða. Heilbrigðiskostnaður vegna meðgöngu sé því undanskilinn, þar með talin fæðingarhjálp og dvöl á fæðingarstofnun. Tryggingin tekur heldur ekki til kostnaðar sem verður vegna sjúkdóma sem rekja má til meðgöngu eða fósturláts.

Annað sem er undanskilið er til dæmis kostnaður við heilbrigðisþjónustu vegna slyss sem átti sér stað áður en vátryggingin tók gildi eða sjúkdóms sem hafði þegar látið á sér kræla.

Sumar fari heim og fæði þar

Mál konunnar frá Mexíkó er ekki einstakt, kerfið hefur verið svona um árabil. Rúnar Helgi Haraldsson, forstöðumaður Fjölmenningarseturs, segist þekkja nokkur dæmi þess að konur frá löndum utan EES hafi lent í vanda vegna heilbrigðiskostnaðar á meðgöngu. Sumar grípi til þess ráðs að fara til heimalandsins þar sem þær séu tryggðar og eiga barnið þar. Hann segir hrikalegt til þess að hugsa, ákveði einhver að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Þetta sé gloppa í kerfinu sem þurfi að stoppa upp í. 

Óljóst hvernig innheimtu sé háttað

Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem veitir innflytjendum ókeypis lögfræðiráðgjöf, segist fá nokkur tilvik inn á borð til sín á ári. Hún segir að konur fái þjónustu, þær geti greitt eftir á, hún viti ekki hvernig innheimtu sé háttað. Hún þekkir engin dæmi þess að konur hafi neitað sér alfarið um heilbrigðisþjónustu á meðgöngu eða fætt heima án aðstoðar. 

Íslenskar konur í Bandaríkjunum komu hingað á steypinum

Viðmælendur Spegilsins nefna sumir að miðað hafi verið við sex mánuði til að koma í veg fyrir að fólk sem ekki greiðir neitt til samfélagsins gæti fengið hér ókeypis þjónustu. Mikið hafi verið um að íslenskar konur, sem voru búsettar í Bandaríkjunum, kæmu hingað til að fæða og borguðu ekkert.

Telja að það fjölgi í hópi ósjúkratryggðra

En er mikið um að ósjúkratryggðar konur fæði börn hér á landi? Sjúkratryggingar búa ekki yfir þessum upplýsingum og Landspítalinn hafði ekki tök á því að taka þær saman fyrir Spegilinn. Það er þó líklega nokkuð um þetta, Morgunblaðið greindi frá því að árið 2006 hefðu verið gefnir út 50 reikningar vegna fæðinga ósjúkratryggðra kvenna og það er tilfinning viðmælenda Spegilsins að það fjölgi í hópi ósjúkratryggðra hér á landi. 

Ingibjörg segir að færst hafi í aukana að ósjúkratryggðar konur sæki þjónustu á spítalann. „Ósjúkratryggðir eru fyrst og fremst ferðamenn, við erum einnig að fá hælisleitendur hingað sem eru að fá þjónustu samkvæmt lögum og þá frá Útlendingastofnun. Svo er einstaka kona sem er  ekki komin inn í íslenskt heilbrigðiskerfi, meðal annars Íslendingar sem hafa verið búsettir erlendis og konur íslenskra maka.“ 

Íslensku konurnar séu oftar meðvitaðar um reglurnar og tímasetji þá flutninga þannig að þeir hafi síður áhrif á tryggingastöðu á meðgöngu. 

Hún telur að flestar konur leiti sér aðstoðar, þurfi þær á henni að halda. Tilfinning hennar sé sú að konur, almennt óháð tryggingarstöðu, setji barnið í forgrunn og láti sig hafa kostnaðinn. „En það er til í dæminu að konur dragi það og komi seinna en þær myndu annars gera.“ Meira beri á þessu hjá þeim sem séu ósjúkratryggðar. 

Lengi rangar upplýsingar í fræðslubæklingi

Edda Ólafsdóttir, sérfræðingur í málefnum innflytjenda hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar óttast að þessum málum komi til með að fjölga. „Ef við bara horfum á hvað er að gerast í íslensku samfélagi, það eru fleiri og fleiri að koma til landsins erlendis frá, miklir búferlaflutningar og sumir segja að við stöndum frammi fyrir einum stærstu samfélagsbreytingum á Íslandi. Það er fleira fólk alls staðar að úr heiminum sem er að koma hingað til okkar þannig að ég er ansi hrædd um að við eigum eftir að sjá fleiri svona mál." 

Mynd með færslu
 Mynd:
Solveig Jóhannsdóttir, ljósmóðir á heilsugæslustöðinni í Efra-Breiðholti og Edda Ólafsdóttir, sérfræðingur á velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Edda segir að það þurfi að vera vakandi fyrir þessu og fræða fólk um kerfið. Það hafi verið misbrestur á því að þessi fræðsla sé í lagi en í bæklingi sem ætlaður var erlendum konum hér á landi var að sögn þeirra Sólveigar og Eddu lengi fullyrt að öll þjónusta á meðgöngu væri ókeypis. Bæklingurinn hefur nú verið uppfærður. 

Á borði velferðarnefndar

Málið er komið inn á borð stjórnvalda, Halldóra Mogensen, Pírati og formaður velferðarnefndar Alþingis, segist ekki hafa áttað sig á því að kerfið væri svona fyrr en mál mexíkósku konunnar kom upp um helgina. Hún segir mikilvægt að tryggja að konur neiti sér ekki um heilbrigðisþjónustu á meðgöngu vegna kostnaðar og vill kanna hversu algengt er að konur sem ekki eru sjúkratryggðar fæði hér börn og hvort það hafi færst í aukana. Það sé mikilvægt að huga að því hvaða hvata kerfið skapi og horfa til framtíðar, samfélagið sé að breytast og líklegt að tilvikum fjölgi. Heilbrigðisráðherra er með málið til skoðunar og velferðarnefnd hyggst funda um það í næstu viku. 

Leiðrétting: Í hljóðútgáfu pistilsins segir að Íslendingar sem flytja heim frá EES ríkjum komist strax inn í sjúkratryggingakerfið, sá fyrirvari er á þessu að viðkomandi hafi verið tryggður í fyrra búsetulandi eða sé handhafi evrópska sjúkratryggingarkortsins.