Fæðing ekki ófyrirséður atburður
Andri Ólafsson, samskiptastjóri VÍS, segir að meginreglan í heimi trygginganna sé að aðeins séu tryggðir óvæntir og skyndilegir atburðir sem verði án vilja hins vátryggða. Heilbrigðiskostnaður vegna meðgöngu sé því undanskilinn, þar með talin fæðingarhjálp og dvöl á fæðingarstofnun. Tryggingin tekur heldur ekki til kostnaðar sem verður vegna sjúkdóma sem rekja má til meðgöngu eða fósturláts.
Annað sem er undanskilið er til dæmis kostnaður við heilbrigðisþjónustu vegna slyss sem átti sér stað áður en vátryggingin tók gildi eða sjúkdóms sem hafði þegar látið á sér kræla.
Sumar fari heim og fæði þar
Mál konunnar frá Mexíkó er ekki einstakt, kerfið hefur verið svona um árabil. Rúnar Helgi Haraldsson, forstöðumaður Fjölmenningarseturs, segist þekkja nokkur dæmi þess að konur frá löndum utan EES hafi lent í vanda vegna heilbrigðiskostnaðar á meðgöngu. Sumar grípi til þess ráðs að fara til heimalandsins þar sem þær séu tryggðar og eiga barnið þar. Hann segir hrikalegt til þess að hugsa, ákveði einhver að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar. Þetta sé gloppa í kerfinu sem þurfi að stoppa upp í.
Óljóst hvernig innheimtu sé háttað
Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, sem veitir innflytjendum ókeypis lögfræðiráðgjöf, segist fá nokkur tilvik inn á borð til sín á ári. Hún segir að konur fái þjónustu, þær geti greitt eftir á, hún viti ekki hvernig innheimtu sé háttað. Hún þekkir engin dæmi þess að konur hafi neitað sér alfarið um heilbrigðisþjónustu á meðgöngu eða fætt heima án aðstoðar.
Íslenskar konur í Bandaríkjunum komu hingað á steypinum
Viðmælendur Spegilsins nefna sumir að miðað hafi verið við sex mánuði til að koma í veg fyrir að fólk sem ekki greiðir neitt til samfélagsins gæti fengið hér ókeypis þjónustu. Mikið hafi verið um að íslenskar konur, sem voru búsettar í Bandaríkjunum, kæmu hingað til að fæða og borguðu ekkert.
Telja að það fjölgi í hópi ósjúkratryggðra
En er mikið um að ósjúkratryggðar konur fæði börn hér á landi? Sjúkratryggingar búa ekki yfir þessum upplýsingum og Landspítalinn hafði ekki tök á því að taka þær saman fyrir Spegilinn. Það er þó líklega nokkuð um þetta, Morgunblaðið greindi frá því að árið 2006 hefðu verið gefnir út 50 reikningar vegna fæðinga ósjúkratryggðra kvenna og það er tilfinning viðmælenda Spegilsins að það fjölgi í hópi ósjúkratryggðra hér á landi.
Ingibjörg segir að færst hafi í aukana að ósjúkratryggðar konur sæki þjónustu á spítalann. „Ósjúkratryggðir eru fyrst og fremst ferðamenn, við erum einnig að fá hælisleitendur hingað sem eru að fá þjónustu samkvæmt lögum og þá frá Útlendingastofnun. Svo er einstaka kona sem er ekki komin inn í íslenskt heilbrigðiskerfi, meðal annars Íslendingar sem hafa verið búsettir erlendis og konur íslenskra maka.“
Íslensku konurnar séu oftar meðvitaðar um reglurnar og tímasetji þá flutninga þannig að þeir hafi síður áhrif á tryggingastöðu á meðgöngu.
Hún telur að flestar konur leiti sér aðstoðar, þurfi þær á henni að halda. Tilfinning hennar sé sú að konur, almennt óháð tryggingarstöðu, setji barnið í forgrunn og láti sig hafa kostnaðinn. „En það er til í dæminu að konur dragi það og komi seinna en þær myndu annars gera.“ Meira beri á þessu hjá þeim sem séu ósjúkratryggðar.
Lengi rangar upplýsingar í fræðslubæklingi
Edda Ólafsdóttir, sérfræðingur í málefnum innflytjenda hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar óttast að þessum málum komi til með að fjölga. „Ef við bara horfum á hvað er að gerast í íslensku samfélagi, það eru fleiri og fleiri að koma til landsins erlendis frá, miklir búferlaflutningar og sumir segja að við stöndum frammi fyrir einum stærstu samfélagsbreytingum á Íslandi. Það er fleira fólk alls staðar að úr heiminum sem er að koma hingað til okkar þannig að ég er ansi hrædd um að við eigum eftir að sjá fleiri svona mál."