Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dæmi um að 5000 lítrar af blóði leki í Varmá

17.07.2017 - 20:11
Íbúar við Varmá í Mosfellsbæ gagnrýna að bæjaryfirvöld hafi lítið gert til að vernda ána, þótt bæjarráð hafi samþykkt að grípa til aðgerða fyrir þremur árum. Þá höfðu 5000 lítrar af blóði frá sláturhúsi lekið í ána. Talsvert af fiski drapst í Varmá fyrir helgi, eftir ítrekuð mengunarslys í sumar.

„Á síðustu fjórum vikum hefur hvert tilvikið komið upp á fætur öðru, allt frá því að vera olíubrák, yfir að því að áin var öll í einhverjum gráum lit sem ég veit ekki hvað veldur, yfir í það að hér hefur allt verið freyðandi vegna sápu. Þetta kemur reglulega og hefur gert það í gegnum árin,“ segir Jóhannes B. Eðvarðsson, sem býr við Álafoss.

Óþekktar orsakir

Orsakir mengunarinnar í sumar eru ókunnar, en Árni Davíðsson, heilbrigðisfulltrúi bæjarins, tók sýni í dag til að útiloka að hún kæmi úr klóaki eða frá landbúnaði á svæðinu. Helsti vandinn er sá að regnvatn og annað yfirborðsvatn úr niðurföllum frá íbúagötum og fyrirtækjum á svæðinu rennur beint út í ána.

„Og það gæti komið frá íbúum sem eru að gera eitthvað við húsin sín eða við bílana sína, en það er heldur ekki hægt að útiloka að það sé einhver starfsemi sem hafi valdið þessu,“ segir Árni. Fólk og fyrirtæki verði að gæta þess að mengandi efni fari ekki í niðurföllin, en yfirvöld geti líka minnkað skaðann. 

„Þetta eru svona lausnir eins og settjarnir eða hreinsiþrær, sem tefja fyrir menguninni og þynna hana út, þannig að það er ólíklegra að hún valdi tjóni í ánni.“

5000 lítrar af blóði láku í ána

Jóhannes hefur búið við Álafoss í nærri tuttugu ár og fylgist vel með lífríkinu í ánni. Hann kveðst langþreyttur á aðgerðaleysi bæjaryfirvalda við mengunarslysunum.

{Þetta er náttúrulega útvistar- og leiksvæði barnanna okkar. Hér er mikið af börnum að vaða og synda í ánni, og manni líður ekki vel með að börnin séu að synda í einhverju sem við vitum ekki hvað er, eða hvenær það kemur eða hvað er í gangi,“ segir hann.

Og það er ekki allt kræsilegt. Í bréfi frá heilbrigðiseftirliti Kjósarhrepps til bæjarráðs Mosfellsbæjar vorið 2014 kemur fram, að dæmi séu um að blóðgámur frá sláturhúsi hafi brotnað, og 5000 lítrar af blóði lekið óhindrað í læk sem opnaðist í ána. Heilbrigðiseftirlitið lagði til að bærinn gerði áætlun um aðgerðir til að vernda ána, og það var samþykkt á fundi bæjarráðs nokkrum vikum síðar. Jóhannes segir að nú, meira en þremur árum síðar, hafi lítið verið gert í málinu, og það séu vonbrigði.

„Ég held að bæjaryfirvöld ættu fyrst og fremst að gera það sem þau eru búin að samþykkja að gera,“ segur hann. „En auðvitað er ábyrgð okkar íbúa töluvert mikil. Við verðum að hugsa um það hvað við setjum í niðurföllin, því það leiðir beint út í á.“

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV