Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Dæmdur fyrir ítrekaðar hótanir

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Erlendur Eysteinsson hefur, í Héraðsdómi Norðurlands-eystra, verið dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir að hóta fyrrum sambýliskonu sinni, Ásdísi Viðarsdóttir, margítrekað með sms-skilaboðum.

Í dómnum eru taldar upp hótanir sem Erlendur sendi Ásdísi, samtals 54 skilaboð, á tímabilinu 3. júlí til 11. ágúst. Með skilaboðunum er hann talinn hafa valdið henni ótta um líf, heilbrigði og velferð.

Að auki liggur fyrir í málinu útprentaður listi með á þriðja hundrað sms-skilaboðum og tölvupóstum, sem Erlendur sendi Ásdísi. Hann viðurkenndi fyrir dómi að hafa sent skilaboðin, en sagði að ekki fælust í þeim hótanir.

Kastljós hefur ítrekað fjallað um þetta mál sem staðið hefur árum saman.

Erlendi hafði áður verið gert að sæta nálgunnarbanni og var, í júní síðastliðinum, dæmdur í 15 mánaða fangelsi þar af 12 skilorðsbundna. Hann hélt þó brotum sínum áfram og rauf þannig skilorð.

Skilorðshluti dómsins er nú tekinn upp og Erlendur dæmdur í 14 mánaða fangelsi. Skilorðsbinding kemur ekki til greina. Auk þess var hann dæmdur til að greiða rúm 530 þúsund í málsvarnarlaun.