Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Dæmdur fyrir ásetning til smygls

03.11.2011 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Hæstiréttur dæmdi í dag karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir að ætla að smygla kílói af kókaíni til landsins. Flúoramfetamín sem hann smyglaði var ekki ólöglegt á þeim tíma og var hann því sýknaður í héraðsdómi.

Tollverðir stöðvuðu karlmann á þrítugsaldri við komuna til landsins frá Berlín í desember 2009, en tæplega fjögur kíló af svokölluðu flúorafmetamíni fundust undir fölskum botni í ferðatösku mannsins. Maðurinn var handtekinn og ákærður ásamt vitorðsmanni sem talinn var hafa skipulagt innflutninginn.

Burðardýrið játaði brot sitt við þingfestingu málsins í héraðsdómi í desember á síðasta ári, en maðurinn taldi að hann væri að smygla um kílói af kókaíni til landsins. Héraðsdómur sýknaði engu að síður mennina af fíkniefnainnflutningi, þar sem umrætt efni er ekki á lista yfir ólögleg fíkniefni hér á landi.

Ákæruvaldið áfrýjaði dómsniðurstöðunnik í máli burðardýrsins  til Hæstaréttar, sem snéri í dag við sýknudómnum og dæmdi manninn í fimmtán mánaða fangelsi. Þótt efnið sem maðurinn flutti til landsins hafi ekki verið ólöglegt á þeim tíma, hafi tilgangur hans verið að flytja til landsins umtalsvert magn af kókaíni í hagnaðarskyni og hafi sýnt ótvírætt í verki þann ásetning.

Flúoramfetamín hefur nú verið sett á lista yfir ólögleg fíkniefni.