Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Dæmdir til að greiða 5.200 milljónir

08.03.2017 - 19:45
Mynd með færslu
Steingrímur og Karl Wernerssynir. Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag bræðurna Karl og Steingrím Wernerssyni, ásamt Guðmundi Ólasyni, til að greiða þrotabúi Milestone, sem var eignarhaldsfélag bræðranna, rúmlega fimm milljarða króna í skaðabætur. Bræðurnir létu Milestone greiða fyrir hlutabréf Ingunnar systur þeirra í fyrirtækinu, þegar þeir keyptu Ingunni út úr fyrirtækinu fyrir hrun. Bræðurnir voru í fyrra dæmdir í fangelsi í Hæstarétti fyrir sömu viðskipti, ásamt Guðmundi, sem var forstjóri Milestone.

Systkinin Karl, Steingrímur og Ingunn, sem eru börn Werners Rasmussonar apótekara, áttu eignarhaldsfélagið Milestone. Milestone var fyrir hrun stórveldi á íslenskan mælikvarða, og átti um tíma stóran hlut í Sjóvá og Glitni.

Eignarhald systkinanna á Milestone var bæði beint og í gegnum tvö aflandsfélög. Síðla árs 2005 vildi Ingunn selja alla hluti sína í félögunum þremur. Systkinin sömdu um að bræðurnir keyptu hana út fyrir rúmlega fimm milljarða króna. Hlutabréfin voru seld, en bræðurnir greiddu ekki fyrir þau sjálfir, heldur gerði Milestone það. Milestone varð gjaldþrota eftir hrun.

Sérstakur saksóknari ákærði Karl og Steingrím fyrir umboðssvik, bókhaldsbrot og fyrir að rangfæra ársreikninga, ásamt Guðmundi Ólasyni, sem var forstjóri Milestone. Þrír endurskoðendur hjá KPMG voru einnig ákærðir fyrir lögbrot í störfum sínum fyrir Milestone. Héraðsdómur sýknaði sexmenningana, en Hæstiréttur sneri dómnum.

Hæstiréttur sagði að samningar bræðranna við Ingunni hefðu ekki lagt neinar skuldbindingar á Milestone, heldur eingöngu á bæðurna. Þrátt fyrir það hefði Milestone verið látið efna samninga þeirra við Ingunni og í því skyni greitt henni samtals tæplega 5,2 milljarða króna.

Karl Wernersson fékk þriggja og hálfs árs fangelsi, Steingrímur bróðir hans tveggja ára fangelsi, og Guðmundur forstjóri þriggja ára fangelsi. Tveir endurskoðendur KPMG fengu níu mánaða skilorðsbundinn dóm og voru sviptir endurskoðendaréttindum í hálft ár. Þeir voru sýknaðir að hluta. Þriðji endurskoðandinn var alfarið sýknaður.

Þrotabú Milestone höfðaði í janúar 2011 skaðabótamál gegn systkinunum þremur og Guðmundi. Ingunn var sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en Karl, Steingrímur og Guðmundur dæmdir bótaskyldir, og til að greiða þrotabúinu tæplega 5,2 milljarða króna.

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV