Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dæmd til einnar aldar í fangelsi

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Samanlagðar refsingar þeirra sem hafa verið sakfelld fyrir efnahagsbrot í aðdraganda hrunsins fylla heila öld. Tíu árum eftir hrun er síðustu dómsmálunum ekki enn lokið. Alls hafa 40 verið dæmd til fangelsisrefsingar vegna brota sem þau frömdu í rekstri fjármálastofnana og fyrirtækja á árunum fyrir hrun. Þeirra á meðal eru eigendur og æðstu stjórnendur bankanna en einnig lægra sett starfsfólk.

Flestir æðstu stjórnendur bankanna hafa verið sakfelldir og ýmsir millistjórnendur að auki. Sumir hafa verið sýknaðir, þó færri séu en þeir sakfelldu. Þar á meðal stjórnarmenn í SPRON og áberandi menn í bönkum og fyrirtækjum fyrir hrun.

Lítil ásókn í nýtt embætti

Embætti sérstaks saksóknara var komið á fót eftir hrun til að rannsaka hugsanleg brot innan bankanna í aðdraganda hrunsins. Auglýst var eftir einstaklingi til að stýra nýja embættinu í desember 2008. Það verður seint sagt að áhuginn á að gegna embættinu hafi verið mikill. Þegar frestur til að skila inn umsóknum rann út hafði engin umsókn borist. Fresturinn var framlengdur og þá skiluðu tveir inn umsókn. Aðeins annar þeirra uppfyllti kröfurnar sem settar voru fram í auglýsingunni.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi til tíu ára, varð sérstakur saksóknari. Hann var næsta óþekktur meðal landsmanna þegar þarna var komið sögu. Þegar DV reyndi að bregða ljósi á manninn sem átti að rannsaka efnahagsbrot í aðdraganda hrunsins svaraði Ólafur: „Ég er veiðimaður. Ég held að það sé góður eiginleiki í rannsóknarhlutverkinu.“

Embættið var lítið í fyrstu og þurfti að byggja það upp frá grunni. „Þetta var bara að mörgu leyti algjörlega unique tímabil,“ sagði Ólafur Þór í viðtali við RÚV 23. september síðastliðinn. „Þetta var náttúrulega margt nýtt, við vorum að reyna að finna nýjar aðferðir á sama tíma og við vorum að vinna að rannsóknum þessara mála. Fólk ofkeyrði sig, það voru alls konar uppákomur.“ Embættið jókst mjög að vöxtum þegar leið á og áður en yfirstóð voru starfsmenn embættisins búnir að rannsaka rúmlega 200 mál sem tengdust hruninu. Tuttugu og fimm þeirra leiddu til ákæru. Þar af er nítján lokið fyrir íslenskum dómstólum en sex enn til meðferðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV

Hundrað ár í fangelsisrefsingar

Rúmlega helmingur hrunmálanna tengdist stóru bönkunum þremur. Fimm saksóknir beindust að starfsmönnum Glitnis og jafnmargar að starfsmönnum Kaupþings. Starfsmenn Landsbankans voru ákærðir í þremur málum.

Saksóknirnar 25 hafa til þessa leitt til sakfellingar yfir 41 einstaklingi. Þar af er reyndar eitt mál sem er frábrugðið öðrum. Í árdaga embættisins var ekki ljóst hvernig skiptingin skyldi vera milli embætta. Þá saksótti embættið konu sem starfaði í einkabankaþjónustu hjá Kaupþingi. Hún dró sér 50 milljónir af bankareikningum viðskiptavina sinna á árunum 2004-2008. Ef tveggja ára dómur yfir henni er undanskilinn hafa dómstólar landsins ákvarðað brotamönnum hrunsins samtals 100 ár í fangelsisrefsingu og átta mánuðum betur. Þar af eru reyndar tæp tíu ár skilorðsbundin og þeir sem urðu að afplána dóma fengu reynslulausn áður en þeir höfðu setið af sér alla refsinguna.

Af 40 manns sem voru sakfelldir eru 37 karlar og þrjár konur. Önnur konan er eini sakborningurinn sem var sakfelldur en ekki gerð refsing.

Þrettán af 25 ákærum sérstaks saksóknara, og héraðssaksóknara eftir að það embætti varð til, beinast að stjórnendum, eigendum og viðskiptavinum stærstu bankanna. Ellefu voru sakfelldir vegna brota í rekstri Kaupþings og hlutu samtals 35 ára fangelsisdóm. Níu hafa hlotið samtals tæpra 28 ára fangelsisdóma vegna brota sem framin voru innan Glitnis og sex starfsmenn og stjórnendur Landsbankans voru dæmdir til samtals ellefu ára fangelsisvistar.

Af þeim 27 sem voru dæmdir til óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar hafa 25 afplánað dóm sinn.

Mynd: RÚV / RÚV

Sýkna í nokkrum málum

Þótt að refsingar í hrunmálum fylli hundrað ár gerðist það í nokkrum málum að dómstólar dæmdu sakborningum í vil.

Það gerðist til dæmis í Vafningsmálinu þar sem Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, voru sýknaðir. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik með því að misnota aðstöðu sína við 102 milljóna evra lánveitingu til Milestone í febrúar 2008. Það lán var notað til að greiða lán sem Morgan Stanley hafði gjaldfellt og Milestone var í ábyrgð fyrir.

Óttar Pálsson og Lárus Welding. - Mynd: RÚV / RÚV

Forstjóri og stjórnarmenn SPRON voru sýknaðir af ákæru um umboðssvik vegna tveggja milljarða króna láns sem sparisjóðurinn veitti Exista skömmu fyrir hrun. Sérstakur saksóknari taldi að þau hefðu stefnt fé sjóðsins í verulega hættu en Hæstiréttur benti á að samkvæmt gögnum sem stjórnin hafði aðgang að var eiginfjárstaða Exista afar sterk.

Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og Elín Sigfúsdóttir, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, voru ákærð fyrir umboðssvik vegna lána sem bankinn veitti aflandsfélögum sem héldu utan um kauprétt starfsmanna Kaupþings. Hæstiréttur taldi ekki sýnt fram á að þau hefðu stefnt fé bankans í hættu þar sem hlutabréfaverð í Kaupþingi hafi verið hátt á þessum tíma og bankinn talinn stöðugur.

Lýður Guðmundsson og Sigurður Valtýsson voru ákærðir fyrir umboðssvik með því að hvor um sig hefði látið VÍS lána félagi hins peninga. Báðir sátu í stjórn VÍS á þeim tíma. Málið féll um sjálft sig þegar fyrrverandi framkvæmdastjóri eigin viðskipta mætti fyrir dóm og sagðist hafa tekið ákvörðun um veitingu lánanna. Síðan hefði hann upplýst hvorn um sig um lánið til hins. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Lýð og Sigurð og ákæruvaldið áfrýjaði dómnum ekki.

Gagnrýni á rannsókn og dóma

Starfsemi sérstaks saksóknara var fjarri því óumdeild. Í upphafi var óvíst hvernig embættið myndi þróast og starfsmenn fáir. Eva Joly, sem getið hafði sér orð fyrir rannsókn og saksókn spillingarmála í Frakklandi, kom til Íslands skömmu eftir hrun og hvatti til þess að embættið yrði eflt. Hún hvatti líka mjög til þess að hart yrði gengið fram í að rannsaka hugsanleg lögbrot. Þetta féll í misjafnan jarðveg og gagnrýndu sumir að embættið kynni að sækja of hart fram undir þessum áhrifum.

Ítrekað hefur verið gagnrýnt að rannsóknir taki langan tíma og að fólk með réttarstöðu grunaðra hafi árum saman þurft að búa við óvissu. Tíu árum eftir hrun er sex málum enn ólokið fyrir dómstólum og rannsókn hrunmála lauk ekki fyrr en í desember síðastliðnum þegar síðasta málið var fellt niður hjá héraðssaksóknara.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Margir hafa orðið til að gagnrýna embættið. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði nýlega að aldrei ætti að stofna sérstök saksóknaraembætti til að sinna afmörkuðum flokkum ætlaðra afbrota og að ekki ætti að stofna baráttuembætti til að ná fram niðurstöðum í einum málaflokki „sem ekki standast samanburð við meðferð mála almennt“. Hann hefur líka verið gagnrýnin á aðkomu Joly að rannsókn hrunmála hérlendis.

Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður sérstaks saksóknara, gagnrýndi embættið harðlega, aðferðafræði þess og störf, sérstaklega að hlustað hefði verið á upptökur af samtölum verjenda og sakborninga sem ekki er heimilt. Hann bar líka vitni fyrir sakborninga í máli sem embættið rak gegn stjórnendum Kaupþings. Sérstakur saksóknari hafði áður kært Jón og samstarfsmann hans fyrir að vinna greinargerð fyrir menn úti í bæ um mál sem þeir áttu þátt í að rannsaka fyrir embættið. Ríkissaksóknari gaf ekki út ákæru.

Hleranir embættisins sættu sérstakri gagnrýni og einkum sú staðreynd að símtöl grunaðra manna og sakborninga við lögmenn sína voru tekin upp. Embættið viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð við hlerun en sagði að vinnureglan væri sú að hætta hlustun um leið og ljóst væri að sakbornngur ræddi við verjanda sinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

Sögðu sig frá málinu

Það atriði sem vakti þó kannski mesta athygli snýr að átökum verjenda tveggja sakborninga í Al Thani-málinu og sérstaks saksóknara. Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, og Ragnar H. Hall, verjandi Ólafs Ólafssonar, kröfðust þess að fá lengri tíma til að undirbúa málsvörn sina og meiri aðgang að gögnum málsins skömmu áður en aðalmeðferð átti að hefjast. Því var saksóknari andvígur og bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur vísuðu þeim á bug. Gestur og Ragnar sögðu sig þá frá málinu. Skipa þurfti nýja verjendur og fresta aðalmeðferð. Gestur og Ragnar voru dæmdir til að greiða eina milljón hvor í sekt fyrir að hafa tafið málsmeðferð að óþörfu.

Enn mál í gangi áratug eftir hrun

Þrátt fyrir að tíu ár séu frá hruni er dómsmálum sem því tengjast fjarri því lokið. Aðalmeðferð í Aurum Holdings-málinu fór fram 25. september síðastliðinn. Það snýr að meintum umboðssvikum vegna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 fékk til að kaupa hlut Fons í Aurum Holdings í júlí 2008. FS38 var eignalaust félag og fékk sex milljarða lán til kaupanna án þess að leggja fram nokkrar tryggingar. Lánið var aldrei endurgreitt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi bankans, og Bjarni Jóhannesson, viðskiptastjóri hjá Glitni, voru allir sýknaðir þegar Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu 2014. Hæstiréttur ógilti dóminn vegna harðorða ummæla Sverris Ólafssonar um sérstakan saksóknara í fréttaviðtali við RÚV að dómi föllnum. Það þótti til marks um að draga mætti óhlutdrægni dómarans í efa. Hann er bróðir Ólafs Ólafssonar sem sætti þá ákæru af hálfu sérstaks saksóknara og hlaut síðar þungan dóm í Al Thani-málinu. Lárus og Magnús Arnar voru sakfelldir í annarri umferð málsins fyrir héraði 2016 en Jón Ásgeir og Bjarni sýknaðir. Lárus og Magnús Arnar áfrýjuðu dómi og ákæruvaldið áfrýjaði sýknu Jóns Ásgeirs. Dómur Landsréttar verður kveðinn upp innan skamms.

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag og fimmtudag. Hreiðar er ákærður fyrir umboðs- og innherjasvik og Guðný Arna fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að veita einkahlutafélagi í eigu Hreiðars Más 575 milljóna króna lán í ágúst 2008. Samkvæmt ákæru notaði félagið féð til að kaupa hlutabréf af Hreiðari Má. Hlutabréfin hafði Hreiðar Már fengið á sérkjörum samkvæmt kaupréttarsamningi en seldi félagi sínu á markaðsvirði. Mismunurinn var samkvæmt þessu 324 milljónir sem lagðar voru inn á bankareikning Hreiðars Más og því hagnaður hans af fléttunni.

Frá Landsdómi 2012, málshöfðun gegn Geir Hilmari Haarde fyrrverandi forsætisráherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV

Nýlega var svo CLN-málinu vísað frá dómi en Sérstakur saksóknari kærði niðurstöðuna til Landsréttar. CLN-málið snýr að meintum umboðssvikum helstu stjórnenda Kaupþings fyrir hrun, þeirra Hreiðars Más Sigurðssonar forstjóra, Sigurðar Einarssonar stjórnarformanns og Magnúsar Guðmundssonar, forstjóra Kaupþings í Lúxemborg. Hreiðar Már og Sigurður voru ákærðir fyrir stórfelld umboðssvik, og Magnús fyrir hlutdeild í þeim, með því að lána 72 milljarða króna út til flókinna viðskipta með svonefnd lánshæfistengd skuldabréf. Í fyrstu var talið að öll fjárhæðin hefði tapast en eftir samkomulag Deutsche Bank við Kaupþing og tvö eignarhaldsfélög meðan á aðalmeðferð málsins stóð endurheimtist 51 milljarður króna. Allir sakborningar voru sýknaðir í héraði. Hæstiréttur fyrirskipaði frekari rannsókn málsins af hálfu héraðssaksóknara en þegar málið kom aftur fyrir héraðsdóms var því vísað frá.

Auk þessara mála er beðið lokaniðurstöðu í þremur málum, Stím-málinu, markaðsmisnotkunarmáli Glitnis og Marple-málinu.

Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson / RÚV

Tveir úr stjórnkerfinu saksóttir

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, var sakfelldur í Hæstarétti í byrjun árs 2012. Hann seldi hlutabréf í Landsbankanum upp úr miðjum september 2008, skömmu áður en bankarnir féllu. Þá hafði hann setið í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og fengið upplýsingar um stöðu bankanna. Baldur hlaut tveggja ára fangelsisdóm.

Mál Baldurs vakti mikla athygli en þó hvergi nærri jafn mikla og mál Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Rannsóknarnefnd um fall bankanna komst að þeirri niðurstöðu að Geir, Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hefðu vanrækt skyldur sínar í aðdraganda hruns. Þingnefnd lagði til við Alþingi að þeir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, yrðu ákærð. Niðurstaða atkvæðagreiðslu í þinginu var sú að Geir einn var ákærður og voru Samfylkingarþingmenn gagnrýndir harðlega og sakaðir um að kjósa þannig að þeirra fólk slyppi, og Árni með þeim, en Geir einn sæti eftir á sakabekk.

Landsdómur kom saman í fyrsta og eina skipti. Viðamestu liðum ákærunnar var vísað frá dómi áður en kom að aðalmeðferðinni. Geir var sýknaður af þremur af fjórum ákæruliðum sem eftir stóðu. Hann var sakfelldur fyrir að hafa ekki boðað sérstaklega til ríkisstjórnarfunda um stöðu bankanna en ekki gerð refsing. Geir fór með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og taldi á sér brotið. Því hafnaði dómstóllinn.

Leiðrétt 8. október Dagsetning aðalmeðferðar yfir Hreiðari Má Sigurðssyni og Guðný Örnu Sveinsdóttur hefur verið leiðrétt. Einnig hefur verið bætt úr því að í lýsingu á ákæru féll út að Hreiðar Már er ákærður fyrir umboðssvik og þáttur Gyðnýjar samkvæmt ákæru leiðréttur.