Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Dæmd í 30 ára fangelsi vegna andvana fæðingar

Mótmælendur við þinghúsið í El Salvador, 1. júlí 2014, krefjast náðunar 14 kvenna sem voru dæmdar í 40 ára fangelsi fyrir að fara í fóstueyðingu.
Mótmælendur við þinghúsið í El Salvador, 1. júlí 2014, krefjast náðunar 17 kvenna sem voru dæmdar í allt að 30 ára fangelsi fyrir þungunarrof. Mynd: EPA - EFE
Nítján ára kona, sem varð þunguð eftir nauðgun, hefur verið dæmd í 30 ára fangelsi í El Salvador fyrir morð. Dómari komast að þeirri niðurstöðu að konan hafi ekki sótt sér þá læknishjálp sem nauðsynleg var þegar barnið fæddist, nokkru fyrir tímann. Sú vanræksla jafngildi morði.

Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að konan sé úr dreifbýli í austurhluta El Salvador. Landið er í Mið Ameríku og eitt það hættulegasta í heimi. Glæpagengi eru þar aðsópsmikil og morðtíðni ein sú hæsta í heimi. Þá er algengt er að meðlimir glæpagengja þvingi konur í kynferðissambönd og/eða vændi. 

Ólétt eftir nauðgun

Konan sem um ræðir var þvinguð í slíkt samband sem stóð mánuðum saman og var henni ítrekað nauðgað. Í apríl á síðasta ári fann hún skyndilega til heiftarlegs verkjar í maga og baki, og fæddi barn á salerni. Að því er fram kemur í Guardian, hafði hún ekki gert sér grein fyrir því að hún væri ólétt.

Sérfræðingar sem báru vitni við réttarhöldin gátu ekki kveðið upp úr um það hvort barnið hefði fæðst andvana eða látist skömmu eftir fæðingu. Dómarinn var hins vegar ekki í neinum vafa. Konan hafi ekki sótt sér læknishjálp vegna þess að hún vildi ekki eignast barnið, og kastað því í klósett til þess að stytta því aldur. Því væri rétt að dæma hana í 30 ára fangelsi. 

Algert bann við fóstureyðingum

El Salvador er eitt af einungis sex löndum í heimi þar sem fortakslaust bann er við meðgöngurofi. Fóstureyðingar eru ólöglegar undir öllum kringumstæðum - líka ef konu hefur verið nauðgað eða líf hennar er í hættu vegna meðgöngunnar. Hin löndin eru Vatíkanið, Malta, Chíle, Níkaragúa og Dómíníkanska lýðveldið. Lögum um fóstureyðingar var breytt í El Salvador árið 1997. Þær voru áður löglegar.

Fjöldi kvenna í El Salvador hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir morð, eftir að hafa farið í fóstureyðingu. Mannréttindasamtök stóðu fyrir herferð árið 2014 þar sem þess var krafist að 17 konur sem voru í fangelsi vegna fóstureyðingar, yrðu látnar lausar. Þær höfuð verið dæmdar í 15 til 30 ára fangelsi. Nokkrar þeirra hafa nú verið látna lausar, en að minnsta kosti fimm til viðbótar hafa verið sakfelldar í svipuðum málum og dæmdar í fangelsi.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV