Daði og Árný með vefþætti frá Kambódíu

Mynd með færslu
 Mynd: Árný Fjóla - Instagram

Daði og Árný með vefþætti frá Kambódíu

23.12.2017 - 09:39

Höfundar

Daði Freyr Pétursson hefur sannað sig sem einn efnilegasti rafpoppari landsins, en hann stimplaði sig inn í tónlistarsenu landans með þáttöku í Söngvakeppninni fyrr á þessu ári. Árný Fjóla Ásmundsdóttir, unnusta hans, er mannfræðinemi, listakona og bóndi. Parið er nú komið til Kambódíu og á meðan dvölinni stendur gera þau vefþætti í samstarfi við RÚV sem birtast tvisvar í viku á ruv.is og Facebook síðu RÚV.

Þættirnir eru af tvennum toga. Einu sinni í viku verður þátturinn einskonar ferða/lífsstílsblogg. Þau ætla að leigja hús í smábænum Kampot og sýna hvernig lífið er þar, hvernig er að flytja á nýjan stað og aðlagast samfélaginu. Sýndar verða svipmyndir frá ferðalögum, ýmiss fróðleikur um Kambódíu, samfélagið og það sem Daði Freyr og Árný Fjóla gera hverju sinni.

Hinn þáttur vikunnar verður meira unninn og með mismunandi þemu. Sem dæmi má nefna tónlistarþætti, þar sem Daði Freyr sýnir hvernig hann býr til tónlist með því að notast við hluti úr umhverfinu. Matreiðsluþættir og smakkþættir munu eiga sinn sess og almenn menningarumfjöllun með viðtölum við heimamenn.

Parið verður á helstu samfélagsmiðlum svo sem Snapchat (arnyogdadi), Instagram (arnyfjola og dadimakesmusic) og Twitter (dadimakesmusic).

Þar geta áhorfendur haft samband við parið og haft áhrif á framleiðslu þáttanna t.d. með því að koma með uppástungur að umfjöllunarefni. Markmið Daða Freys og Árnýjar Fjólu er að hafa þættina gagnvirka þannig að áhorfendur geti tekið þátt í ferðalaginu.

Hægt er að fylgjast með ferðum þeirra hér á vef RÚV eða á facebook síðu þeirra.