Crowe ræddi íslenskt veðurfar við Leno

Mynd með færslu
 Mynd:

Crowe ræddi íslenskt veðurfar við Leno

27.02.2013 - 07:17
Nýsjálenski leikarinn Russell Crowe ræddi um dvöl sína á Íslandi við bandaríska spjallþáttastjórnandann Jay Leno þegar Crowe var gestur Lenos á mánudagskvöld. Leikarinn hrósaði fegurð landsins en viðurkenndi að veðurfarið væri óútreiknanlegt.

Crowe var staddur hér á landi við tökur á kvikmyndinni Noah ásamt Emmu Watson og Anthony Hopkins undir styrkri stjórn leikstjórans Darren Aronofsky. Leikarinn tók þátt í Óskarsverðlaunahátíðinni á sunnudagskvöld enda var nýjasta kvikmynd hans, Vesalingarnir, tilnefnd til átta verðlauna.

Crowe var síðan gestur Jay Leno á mánudagskvöld. Þar ræddi hann meðal annars um árangur mótleikkonu sinnar í Vesalingunum, Anne Hatheway, sem hlaut Óskarinn fyrir leik í aukahlutverki.  Og um þátttöku sína í kvikmyndinni Man of Steel. Þar leikur Crowe föður Ofurmennisins. 

Síðan barst talið að Íslandi.  Crowe sagði við Leno að í huga Íslendinga væri gott sumar þegar það væru meira en tíu dagar af sól. Veðrið gæti breyst eins og hendi væri veifað.  Leikarinn rifjaði upp einn einstaklega slæman dag í tökum, þegar nefið á hjólhýsinu hans grófst niður í sand.  Þegar hann leit síðan út sá hann að líkamsræktaraðstaða hans, sem hann geymdi í litílli kerru, hafði fokið burt.

Crowe sagði að vinnan á Íslandi hefði því verið mjög krefjandi en að landið væri ákaflega fallegt.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Íslands-myndband Doyle og Crowe frumsýnt

Innlent

Crowe á hjóli um Reykjavík

Innlent

Russell Crowe kominn til landsins