Corbyn gælir við aðild að EES-samningnum

07.03.2019 - 06:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, er sagður gæla við þá hugmynd að Bretar feti svipaða slóð og EFTA-ríkin og gerist aðilar að EES-samningnum eftir Brexit. BBC greinir frá þessu. Haft er eftir Corbyn að hann sé nú að „skoða allar leiðir“ sem geti komið í veg fyrir að Bretar standi uppi samningslausir eftir boðaða úrgöngu úr Evrópusambandinu hinn 29. mars.

Þetta sagði Corbyn eftir fund sem hann átti með tveimur þingmönnum og fyrrverandi ráðherrum úr Íhaldsflokknum, sem aðhyllast það sem kallað hefur verið „Innri markaðurinn 2.0“ og svipar mjög til sambands Íslands, Noregs og Liechtenstein við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn.

Corbyn vildi þó ekki skuldbinda sig til að styðja þá lausn enn sem komið er, segir í frétt BBC. Tíminn er hins vegar orðinn ansi naumur. Rétt rúmar þrjár vikur eru í Brexit að óbreyttu, með eða án samnings, og á þriðjudaginn, 12. mars, á að greiða atkvæði í breska þinginu um hvern þann samning sem þá liggur fyrir.

Ekkert hefur þokast í samningamálum í Brussel undanfarna daga. Í frétt BBC er haft eftir Corbyn að hann hafi fallist á að hitta tvímenningana og ræða þeirra hugmyndir þar sem hann sé alfarið mótfallinn því að Bretar yfirgefi ESB án samnings, eins og allt stefni þó í að gerist. Þess vegna eigi hann nú í viðræðum við alla flokka og hópa á þinginu, með það fyrir augum að koma í veg fyrir samningslaust Brexit, sem hann telur verða afar skaðlegt fyrir breska hagsmuni. 

Ekki verður ráðið af frétt BBC, hvort hugmyndir Íhaldsþingmannanna tveggja feli í sér að Bretar gangi í EFTA, eða freisti þess einfaldlega að ná svipuðum samningi og EFTA við ESB og verða um leið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi