Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Clinton skaut fast á Trump

27.05.2017 - 07:14
Former Secretary of State Hillary Clinton delivers the commencement address at Wellesley College, Friday, May 26, 2017 in Wellesley, Mass. Clinton graduated from the school in 1969. (AP Photo/Josh Reynolds)
 Mynd: AP
Hillary Clinton skaut föstum skotum í átt til Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, þegar hún hélt ræðu fyrir útskriftarnemendur Wellesley kvennaháskólans í Massachusetts. Hún líkti stjórnartíð forsetans við þann sem var við völd þegar hún útskrifaðist þaðan sjálf. 

Clinton steig aftur í ræðupúltið þar sem hún hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema fyrir nærri 50 árum. Þá var Richard Nixon forseti Bandaríkjanna, Víetnam-stríðið í algleymingi og fjöldi félagslegra hreyfinga að verða til. Clinton vatt sér fljótt að þeim líkindum sem finna má í stjórnartíð forsetanna. Hún minntist á að málefni ýmissa minnihlutahópa væru skilin eftir í mikilli óvissu um þessar mundir.

Fyrrum forsetaframbjóðandinn sagði leiðtoga sem séu reiðubúnir að ala á ótta og óvissu hafa yfir tólum að ráða sem voru óhugsandi þegar hún var að útskrifast. Þegar valdamenn búi til sínar eigin staðreyndir og ráðist gegn þeim sem dirfast að rengja þær, sé það upphafið að endalokum frjáls og opins samfélags, sagði Clinton. 

Aldrei minntist hún orði á Trump í ræðu sinni, en allir í salnum vissu um hvaða leiðtoga væri að ræða. Hún sagði að þegar hún útskrifaðist hafi útskriftarnemendur verið æfir yfir þeim sem bar sigur úr býtum í nýloknum kosningum. Sá maður hafi lokið sínum forsetaferli í smán eftir að hafa verið dæmdur fyrir embættisglöp með því að reyna að hafa áhrif á rannsókn á hendur sér, og rekið þann sem stýrði rannsókninni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV