Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

CIA telur krónprinsinn hafa fyrirskipað morðið

17.11.2018 - 00:22
epa07113671 Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman attends a session at the Saudi Arabia's investment conference, in Riyadh, Saudi Arabia, 23 October 2018. Saudi Arabia on 23 October opened the three-day Future Investment Initiative conference that
Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu. Honum og stjórn hans er ekkert um það gefið að hann sé sakaður um aðild að morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi, eins og tyrknesk stjórnvöld, CIA og nú öldungadeild Bandaríkjaþings hafa gert. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríska leyniþjónustan CIA telur einsýnt að krónprins Sádi-Arabíu, Múhameð bin Salman, hafi fyrirskipað morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi í Istanbúl í síðasta mánuði. Þetta gengur þvert gegn fullyrðingum stjórnvalda í Ríad, um að krónprinsinn tengist morðinu ekki á nokkurn hátt.

Bandaríska blaðið Washington Post hefur þetta eftir ónafngreindum embættismönnum innan leyniþjónustugeirans sem kunnugir eru rannsókn CIA á málavöxtum. Starfsmenn CIA hafa rýnt í gögn af ýmsu tagi og úr ýmsum áttum og samkvæmt frétt blaðsins er það eindregin niðurstaða rannsóknarinnar að krónprinsinn tengist tilræðinu með beinum hætti. 

Meðal þess sem leyniþjónustumennirnir höfðu aðgang að var upptaka af hleruðu símtali bróður Múhameðs, Khalids bin Salman, við Khashoggi. Khalid er sendiherra Sádi-Arabíu í Bandaríkjunum og mun hann hafa hringt í Khashoggi, persónulega, og sagt honum að hann yrði að leggja leið sína í konsúlatið í Istanbúl til að nálgast þau opinberu plögg sem hann þurfti að fá til að geta kvænst tyrkneskri heitkonu sinni.

Í símtalinu fullvissaði Khalid blaðamanninn um, að hann væri fullkomlega óhultur í Tyrklandi og þyrfti ekkert að óttast. 

Í frétt Washington Post segir að ekki sé víst að Khalid hafi vitað að Khashoggi yrði myrtur en hitt sé ljóst, að hann hafi hringt í blaðamanninn og fært honum þessi boð að undirlagi bróður síns, krónprinsins. Það sé mat CIA-manna, að sá hafi vel vitað hvað biði Khashoggis í Istanbúl, og það  sé hreinlega útilokað að þetta hafi verið gert án hans vitneskju og samþykkis. Múhameð bin Salman sé sem völdin hefur í Sádi-Arabíu, þótt faðir hans, konungurinn, eigi að heita æðsti valdamaður landsins.

Þá er það mat CIA að þrátt fyrir þetta sé staða krónprinsins Múhameðs það sterk að honum verði varla haggað og að gengið sé út frá því sem gefnu, að hann muni taka við konungstigninni af föður sínum.