Þetta kemur fram á vefsíðunni Bleeding Cool sem þykir hafa verið nokkuð nösk á fréttir af nýjustu Star Wars-mynd bandaríska leikstjórans JJ Abrams. Tökur á myndinni hófust fyrir skömmu í Pinewood-kvikmyndaverinu í London.
Mikil leynd hvílir yfir tökunum á Star Wars og litlar upplýsingar hafa fengist um dvöl þeirra hér á landi. Þó greindi Morgunblaðið frá því í byrjun mánaðarins að tökulið myndarinnar hafi verið í þyrlu sem lenti í hremmingum við Eyjafjallajökul. Engan sakaði í slysinu.
Aðdáendur Star Wars hafa reynt að rýna í hvað það þýði að tökulið Star Wars hafi komið til Íslands. Flestir þeirra hallast að því að landið verði notað sem plánetan Hoth sem sást í upphafsatriði The Empire Strikes Back. Þær tökur fóru fram í Noregi.
Ekki kemur fram á vef Bleeding Cool hvort tökurnar með stormsveitarmönnunum og Chewbacca hafi þegar farið fram né hvort eitthvað meira verði tekið upp hér á landi fyrir myndina.
Fyrst var greint frá komu tökuliðsins á vef visir.is um miðjan mars. Þar kom fram að umfangið færi allt eftir því hvernig gengi að skoða tökustaði. Þá var því einnig haldið fram að tökuliðið yrði hér í apríl.