Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Carrie Fisher meðal leikenda í Star Wars IX

Mynd með færslu
 Mynd: EPA - AAP

Carrie Fisher meðal leikenda í Star Wars IX

28.07.2018 - 04:49

Höfundar

Bæði Carrie Fisher, sem lést í desember 2016, og Mark Hamill eru á meðal leikara í nýjustu Stjörnustríðsmyndinni, sem byrjað verður að kvikmynda í Lundúnum í næstu viku. Myndin, sem ber vinnutitilinn Star Wars IX, verður níunda myndin í því sem kallað er Skywalker- eða Geimgengils-sagnabálkinum, sem byrjaði með fyrstu Stjörnustríðsmyndinni, A new hope, árið 1977.

 J.J. Abrams leikstýrir, en hann var einnig í leikstjórastólnum við gerð sjöundu myndarinnar, The Force Awakens, árið 2015. Nýja myndin byrjar þar sem þeirri síðustu lauk, en í lok hennar var ekki annað að skilja en að jarðvist Loga Geimgengils væri á enda, en Lilja prinsessa var enn á dögum. Carrie Fisher var hins vegar látin þegar myndin var frumsýnd, sem áður segir.

Í tilkynningu frá Disney og Lucasfilm segir leikstjórinn Abrams að það hafi reynst honum og öðrum höfundum nýju myndarinnar algjörlega ofviða að finna leið til að ljúka Geimgengils-bálkinum með viðunandi hætti án Carrie Fisher. Aldrei hafi komið til greina að fá aðra leikkonu til að túlka Lilju, né að endurskapa hana með tölvutækni. Að lokum var brugðið á það ráð að nýta efni sem tekið var upp með Fisher í hlutverki Lilju við gerð síðustu myndar, en ekki notað. Dóttir Fisher, Billie Lourd, er sögð hafa lagt blessun sína yfir þessa tilhögun.

Auk þeirra Lilju og Loga eiga Stjörnustríðsaðdáendur von á endurfundum við Lando Calrissian, C-3PO, Rey, Kylo Ren og Rose Tico, svo einhver séu nefnd.