Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Cameron og Sigmundur skipa sæstrengs-hóp

29.10.2015 - 07:58
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristín Pálsdótti - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sammæltust um það á fundi sínum í Alþingishúsinu í gærdag að setja á laggirnar vinnuhóp sem verður falið að skoða möguleika þess að leggja sæstreng milli Íslands og Bretlands

Hópurinn er í breskum fjölmiðlum nefndur Energy Task Force en hann á að skila niðurstöðum eftir hálft ár. Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, segir í samtali við fréttastofu í morgun að hópnum verði meðal annars falið að skoða mögulegt verð, mögulegt magn og svo praktíska hluti.

Á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að forsætisráðherrarnir tveir hafi rætt þetta mál og að Sigmundur Davíð hafi fyrirvara við lagningu sæstrengs - hann megi til að mynda ekki hafa áhrif á raforkuverð til heimila og fyrirtækja.

Jóhannes Þór segir að áhuga Breta á sæstrengnum sé mjög raunverulegur - þetta hafi verið nefnt nánast á hverjum einasta fundi í samskiptum ríkjanna undanfarin ár. Á vef Sky-fréttastofunnar í morgun kemur fram að Bretar hafi verið varaðir við því að raforkuverð gæti hækkað á þessu ári þar sem loka þyrfti nokkrum orkuverum. 

Í Hagsjá Landsbankans fyrir ári síðan kom fram að sæstrengur milli Íslands og Bretlands gæti skilað mjög góðri arðsemi og umtalsverðu hreinu gjaldeyrisinnstreymi til þjóðarbúsins. Þar sagði enn fremur að Bretar vilji auka vægi endurnýjanlegrar orkugjafa í sinni raforkuframleiðslu. „Ef ekki kemur til stóraukningar á uppsettu afli í Bretlandi mun orkuöryggi þeirra verða ógnað í náinni framtíð,“ sagði í Hagsjá Landsbankans. 

Bresk og íslensk yfirvöld skrifuðu fyrir þremur árum undir viljayfirlýsingu um samstarf í orkumálum. Charles Hendry, fyrrverandi orkumálaráðherra í ríkisstjórn Camerons, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Breta.

Það vakti talsverða athygli að þegar Hendry hætti í ráðuneytinu fór hann til starfa hjá bresku fyrirtæki sem vill flytja orku frá Íslandi til Bretlands um sæstreng. Eigandi fyrirtækisins hefur styrkt breska íhaldsflokkinn um tugi milljóna króna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV